Hryllingsmyndin Suspiria er frumsýnd á Íslandi í kvöld í Bíó Paradís en tveir íslenskir atvinnudansarar, þær Halla Þórðardóttir og Tanja Marín Friðjónsdóttir, komu að gerð myndarinnar sem leikstýrt er af hinum ítalska Luca Guadagnino sem tilnefndur var til Óskarsverðlauna í fyrra fyrir myndina Call Me By Your Name. Er Halla heiðursgestur á frumsýningunni í kvöld. 

Fram kemur á Facebook viðburði sýningarinnar að Suspiria sé magnþrungin endurgerð á samnefndri kvikmynd Dario Argento frá 1977 sem er ein þekktasta ítalska hryllingsmynd allra tíma. Tilda Swinton leikur listrænan stjórnanda, Dakota Johnson metnaðarfullan dansara og Lutz Ebersdorf fer með hlutverk syrgjandi sálfræðings í heimsþekktu dansstúdíói þar sem svartnættið er altumlykjandi. 

Í samtali við Fréttablaðið segir Halla Þórðardóttir, sem auk þess fer með lítið hlutverk dansara í myndinni, að verkefnið hafi verið afar skemmtilegt en meðal þess sem hún og Tanja sáu um var að þjálfa aðallleikkonurnar fyrir hlutverk sín en tökur fóru fram fyrir tveimur árum síðan, haustið 2016.

Ólíkt öllu sem Halla hefur gert áður

„Þetta var auðvitað bara algjört ævintýri, mjög gaman og ólíkt öllu sem ég hef gert áður. Við vorum nokkrir dansarar sem sáum um að hjálpa þeim. 

Það var mjög skemmtilegt sérstaklega af því maður var undir smá tímapressu, að koma fólki sem ekki hefur dansað til þess að líta út eins og atvinnudansarar á stuttum tíma en þær voru mjög metnaðarfullar fyrir þessu. Undirbúningstíminn tók þrjár vikur en þetta tók níu vikur í heildina með tökum og undirbúningi sem fóru í þetta.“

Halla segir að það séu mikið af stórum danssenum í myndinni en alls hafi fjórtán dansarar komið að því að aðstoða við gerð myndarinnar. Þá hafi Tanja Marín Friðjónsdóttir verið aðalþjálfari Dakotu Johnson, sem frægust er sennilega fyrir 50 Shades of Grey kvikmyndabálkinn, og gengið í hlutverk tvífara hennar í stærstu danssenunum.

Sýningin hefst klukkan 20:00 í kvöld í Bíó Paradís en myndin er ekki við hæfi þeirra sem eru yngri en 16 ára. Sjá má stiklu úr myndinni hér að neðan.