Líklega er Magnús Þór Jónsson, Megas sjálfur, eini núlifandi Íslendingurinn sem almenn þjóðarsátt ríkir um að verðskuldi nafnbótina meistari.

Hann verður 75 ára á morgun, fæddur 7. apríl 1945, og hefur á um hálfrar aldar tónlistarferli markað mörg og djúp spor í íslenska menningarsögu eins og auðheyrt er á safnplötunni Syngdu eitthvað gamalt!

Ekki dauður! Þessi mynd birtist í Vísi 1978 þegar margir trúðu kjaftasögu um að Megas væri kominn yfir móðuna miklu.
Mynd/JA

Alda Music gefur plötuna út Megasi til heiðurs á afmælisdaginn og eðli mannsins og málsins samkvæmt er ekki um neina smáskífu að ræða, 42 laga tvöfaldan geisladisk eða þriggja platna vínylsafn.

„Safnplatan inniheldur hans þekktustu lög á tæplega 50 ára tónlistarferli en fyrsta platan hans kom út 1972,“ segir Halldór Baldvinsson útgáfustjóri sem átti völina og kvölina.

„Það var af nógu að taka og auðvitað mjög erfitt að velja lögin á plötuna og mörg góð lög urðu því að víkja,“ segir Halldór sem átti þó því láni að fagna að Megas greip inn í þegar verið var að reyna að velja safninu nafn.

Megas átti hugmyndina að titlinum, Syngdu eitthvað gamalt!, að afmælis safnplötunni.
Fréttablaðið/GVA

„Þegar verið var að spá í hvað platan ætti að heita, þá kom Megas með hugmyndina um að nefna hana Syngdu eitthvað gamalt! en þar verður fólk bara að lesa í meiningu hans, eins og í textunum hans.“

Halldór segir að auk geisladiskanna hafi verið ákveðið að gefa Syngdu eitthvað gamalt! út á þreföldum vínyl til þess að halda svipuðum lagafjölda óháð útgáfuforminu en auk þess verður afmælisveislan aðgengileg á Spotify frá og með morgundeginum.