Auður Björt Skúladóttur hefur vakið mikla athygli í prjónaheiminum hér á landi enda aðeins 31 árs gömul og þykir fara ótroðnar slóðir í hönnun sinni. Í ágúst gaf hún út aðra prjónabókina sína sem ber heitið Sjöl og teppi – eins báðum megin, en bókin inniheldur á þriðja tug prjónauppskrifta að sjölum og barnateppum. „Allt í bókinni er eins báðum megin og því engin ranga, heldur fallegt báðum megin. Sjölin og teppin innihalda meðal annars tvöfalda kaðla, garðaprjón og gatamunstur sem ég hef verið að þróa saman síðustu ár. Sjölin og teppin eru frá einföldum uppskriftum upp í flóknari svo allir ættu að geta fundið sér eitthvað við hæfi en ég sæki innblástur í sjölin og teppin meðal annars til Hjaltlandseyja.“

Hún segir bókina vera mjög fallega og uppskriftirnar vera þægilega settar upp. „Í henni eru bæði texti og munsturmyndir til að hjálpa prjónaranum að skilja uppskriftina. Oft er talað um að lesa uppskriftina alveg yfir áður en byrjað er að prjóna en það á ekki við um mínar uppskriftir. Þú byrjar á byrjun og prjónar hvert skref fyrir sig þar til þú ert kominn að lok uppskriftar og þá er prjónlesið tilbúið.“

Hér klæðist Auður Björt Skúladóttir sjalinu Haustlilju en pilsið er brúðarpilsið hennar sem móðir hennar saumaði. MYND/CHRISTINE EINARSSON

Öll myndbönd á einum stað

Samhliða útgáfu bókarinnar opnaði Auður vefinn audurbjort.‌is þar sem hún birtir myndir og skýringar- og kennslumyndbönd sem snerta prjónauppskriftir bókarinnar. „Mér hefur alltaf þótt pínu erfitt að skrifa í orðum hreyfingar og lýsingar hvert prjónninn á að fara. Því hef ég alltaf útbúið myndbönd með uppskriftunum til að sýna hvað ég er að meina svo enginn misskilningur eigi sér stað.“

Með útgáfu bókarinnar langaði hana að hafa myndböndin öll á einum stað þar sem prjónarinn gæti leitað að réttu myndbandi á auðveldan hátt. „Á vefnum eru myndbönd af öllum tækniatriðum sem koma við sögu í bókinni ásamt mismunandi prjónaaðferðum. Einnig má finna myndir af öllum sjölunum og teppum í bókinni inni á vefnum ásamt helstu upplýsingum um stærð, garn og um prjónlesið sjálft.“

Kaðlabútateppi og dúlluteppi. MYND/CHRISTINE EINARSSON

Móðirin var fyrirmynd

Auður Björt, sem hefur lokið meistaraprófi í textíl og hönnun frá Menntavísindasviði HÍ, segist hafa prjónað frá því hún man eftir sér. „Móðir mín prjónar mjög mikið og því má segja að ég hafi fetað í fótspor hennar. Á grunnskólaárum mínum prjónaði ég mikið en var þá laumuprjónari og var ekkert að flagga því. Ég gerði fyrsta kaðlaverkefnið mitt í grunnskóla og ákvað að gera heila kaðlapeysu með fullt af köðlum. Enn í dag skil ég ekki hvernig ég, sem táningur, gat prjónað þessa peysu. Í menntaskóla hægðist aðeins á prjónaskapnum þótt ég hafi alltaf haft einhver verkefni í gangi. Á sama tíma kynntist ég manninum mínum en hann gaf mér fyrsta prjónasettið í 20 ára afmælisgjöf. Fram að því hafði ég notað prjónana hennar mömmu.“

Áhugi og þekking hennar jókst jafnt og þétt gegnum árin, fyrst í starfi sínu í prjónahorninu í Fjarðarkaupum og seinna í versluninni Handprjón. „Ég lærði heilmikið í starfinu hjá Rokku og þurfti að sanna mig fyrir eldri kynslóðinni. Þar jók ég meðal annars þekkingu mína á tækniatriðum og fór að reyna meira á sjálfan mig. Ég uppgötvaði fljótlega að ég sá prjónið öðruvísi en aðrir og hef í raun þrívíddarsjón yfir prjónið. Ég er lesblind og greindist seint. Þrátt fyrir það gekk mér vel í skóla og stærðfræði mitt sterkasta fag. Styrkleikar lesblindu er oft sterk sjónræn færni og skapandi hugsun sem ég finn að hjálpar mér í prjónalífinu. Stærðfræðin kemur svo sterk inn þar sem mikið í hönnun prjóns byggir á stærðfræði.“

Seinna meir hóf hún störf hjá Handprjóni þar sem þekking sín á prjónaskap jókst enn meira auk þess sem hún segist hafa kynnst prjónaheiminum nánar.

Sjölin Röst og Arfleifð. MYND/CHRISTINE EINARSSON

Margt heillandi við prjónana

Auður segir svo margt heilla við prjónana. „Þetta er svo mikil núvitund og í raun galdrar, að snúa bandi utan um prjón aftur og aftur og útkoman er eitthvert prjónales. Mér finnst ég ná góðri hvíld, bæði líkamlegri og andlegri með því að prjóna og samtímis fæ ég útrás fyrir listsköpun mína.“

Hún segist einnig ná að núllstilla sig og ekki skemmi að útkoman verði að einhverju sem bæði hún geti notið góðs af og fólkið í kring um hana. „Það er eitthvað svo heillandi og spennandi við það að byrja á nýju verkefni með gullfallegt garn og hefjast handa á þessari vegferð að skapa eitthvað fallegt.“

Sjalið Stilla er fallegt og gengur allt árið um kring. MYND/CHRISTINE

Hönnunarferillinn hófst í Rokku

Það var einmitt í Rokku í Fjarðarkaupum sem hönnunarferill Auðar hófst. „Fyrsta prjónlesið sem ég hannaði var lítil lopapeysa. Það var ekki mikið að frétta fyrst en um 2014 tók ég að mér handavinnuþáttinn fyrir Húsfreyjuna og sá um þrjú blöð. Þar hannaði ég uppskriftir og horfði á þetta sem smá tilraun. Það gekk ótrúlega vel en á sama tíma var ég að klára textílkennaranámið og skrifa fyrstu bókina mína sem heitir Lopapeysu­prjón.“

Hugmyndin að bókinni Sjöl og teppi – eins báðu megin, kviknaði þegar Auður var starfandi í Handprjóni. „Þá var ég ólétt og var að prjóna teppi á ófæddan son minn. Mig langaði að gera teppi í þremur litum en vandamálið var að gera teppi sem yrði eins báðum megin svo maðurinn minn myndi nú ekki snúa því vitlaust. Út varð fyrsta teppauppskriftin mín sem er kaðlabútateppið sem er í fjórum útgáfum í bókinni.“

Einblínir á bókina

Einkennismerki hönnunar Auðar er að prjóna eins báðum megin. „Segja má að ég fari mínar leiðir og skapi eitthvað nýtt þegar ég hanna. Ég hanna mikið út frá aðferðum og formum en mörg af sjölunum hafa orðið til í höfðinu þegar ég hugsa um form og útfærslur. Ég vinn mikið með tvö­falda kaðla, garða­­prjón og gata­prjón inni í garða­­prjóni en allar þessar aðferðir eru þeim eiginleikum gæddar að vera eins báðum megin. Því tek ég flókna hluti og útfæri þá á einfaldan hátt.“

Hún segist alltaf eitthvað nýtt vera að fæðast í höfðinu. „Í hvert skipti sem ég kynni bókina mína fæ ég hugmynd að næsta sjali eða teppi. En þessa dagana ætla ég þó að einbeita mér sem mest að bókinni og kynna hana vel fyrir landsmönnum.“

Yngra barnið er hér vafið í teppið Haustró.