Pixar, vinsælasta kvikmyndaver Hollywood, hefur framleitt ástsælar fjölskyldumyndir á borð við Leikfangasögu-fjarkann Toy Story, Monsters Inc., Wall-E, Inside out og Coco. Lightyear er fyrsta Pixarmyndin síðan 2020 sem ratar í kvikmyndahús, en Soul, Luca og Turning Red fóru allar þráðbeint inn á streymisveituna Disney+. Aðsókn á Lightyear hefur verið slök á heimsvísu, til að mynda minni en á Pixar myndina Cars 3 sem kom út 2017.

Lightyear er eins konar dótturmynd Toy Story, þar sem hún fjallar um persónuna Bósa Ljósár – en ekki leikfangið Bósa, sem við þekkjum úr myndunum heldur sögupersónuna sem leikfangið á að byggja á. Hugmyndin er í sjálfu sér ekki hræðileg, en handritshöfundum bregst bogalistin í ýmsu sem varðar framvindu og takt í sögunni, og persónugallerí. Og hefur þá klúðrast flest sem klúðra má.

Lightyear er hreinræktuð vísindaskáldsaga. Hún fjallar um fólk sem festist á óvinveittri plánetu og langar að komast heim og þarf að nota til þess framtíðartækni og tímaferðalög. Leitin að leiðinni heim er þema sögunnar og spurningin hvað sé heimili er lykilspurningin. Allt er þetta matreitt fyrir unga áhorfendur, eða það er að minnsta kosti hugmyndin.

Undirrituð horfði á myndina með syni og dóttur, fimm og sjö ára gömlum. Sagan gerir ráð fyrir því að börn þekki til alls konar minna úr vísindaskáldskap. Tímaflakkshugmyndin er þokkalega útskýrð en ásetningur persóna og framvinda er þó svo illa matreidd að meira að segja fullorðnir gætu ruglast.

Persónurnar eru grunnar, Bósi sjálfur er ekkert hræðilega spennandi aðalpersóna og áhorfendum er slétt sama um örlög hans. Sambönd hans við lykilpersónur, einnig óspennandi, eru grunn og byggja á engu. Það var gott að sjá opinberlega samkynhneigða aukapersónu í Pixarmynd en þar eru kostirnir upp taldir. Gömul gildi Bósa, sem sagan gengur út á að endurskoða, eru ekkert sérstaklega vel fest eða sannfærandi. Þegar lykilspurningunni um heimilið er svarað, verður svarið eins og þunn afsökun fyrir lengd myndarinnar. ■

Niðurstaða: Óháð heimferð Bósa langaði áhorfendur bara sjálfa að komast heim.