Faraldurinn hefur haldið okkur heima lengur en við kærum okkur um og mörgum finnst erfitt að þurfa að vinna að heiman í svo langan tíma. Starfsfólk sem er lengi að vinna eitt heima er líka í meiri hættu á að upplifa kulnun en aðrir, svo það er um að gera að nýta öll ráð til að gera þetta tímabil auðveldara.

Hreyfðu þig

Í stað þess að halda sér bara gangandi með kaffi er gagnlegt að taka hlé til að hreyfa sig. Það gefur aukna orku og skýrari hugsun og því er tilvalið að fara í göngutúr í hádeginu eða taka heimaæfingu.

Fylgdu áætlun

Margir sem eru alltaf heima eiga erfitt með að hafa skil á milli heimilisverka, vinnunnar og hvíldar, en þessi skil eru afar mikilvæg fyrir heilsuna. Það er ekki hægt að búast við því að fólk haldi sínu striki eins og venjulega í heimavinnu og þess í stað þarf að búa til áætlun sem hentar hverjum og einum og halda sig svo við hana. Það að halda sig við rútínu gerir mikið fyrir andlega heilsu og auðveldar það að skila góðum afköstum. Það er líka gott að skipuleggja tíma sinn vel, en gera um leið ráð fyrir sveigjanleika.

Svo er líka mjög mikilvægt að halda sig við vinnutímann, hætta um leið og honum lýkur og nýta svo frítímann í eitthvað sem hleður batteríin, eins og að stunda áhugamál og eyða tíma með maka eða vinum.

Aftengist

Zoom, Teams, Slack og tilkynningar í símanum eru alveg nauðsynleg tól til að halda sambandi við samstarfsfélagana og það er bæði mikilvægt að halda uppi góðum samskiptum og treysta á samstarfsfélagana. En það þarf að aftengjast þessum stafræna heimi þegar vinnutímanum lýkur. Það er líka allt í lagi að þagga niður í tilkynningum í símanum þegar maður þarf ekki að sinna honum. Endalaust píp og dingl í símanum dregur úr framleiðni og getur farið illa með andlega heilsu.

Vinnið saman

Húsverkin geta orðið meiri byrði þegar allir eru sífellt heima, það þarf til dæmis að elda meira og þrífa meira. Það getur verið gott ráð að skiptast á húsverkum við maka sinn í einn dag eða eina viku. Það hjálpar ykkur báðum að skilja hversu mikið álag fylgir þessum verkum. Þá verður líka auðveldara að gera ráð fyrir þörfum hvort annars og koma til móts við þær, jafnvel án þess að beðið sé um það. Er einhver betri leið til að sýna ást en að sinna þrifum og húsverkum þegar það er ekki einu sinni komið að þér?

Passaðu vinnusvæðið

Það er mikilvægt að hafa hreint og skipulagt vinnuumhverfi og ef hægt er ætti að vera fast vinnusvæði á heimilinu sem er bara notað í vinnu og ekkert annað. Lýsingin skiptir líka miklu, hún á að vera næg til að sjá vel til en ekki svo mikil að hún skapi óþarfa álag á augun. Hún má heldur ekki vera svo lítil að það valdi syfju.

Klæddu þig

Ef maður fer í letifötin er erfiðara að komast í vinnugírinn. Með því að klæða sig í föt sem maður getur farið í út úr húsi er hægt að hafa góð áhrif á hugarfarið og gera sig tilbúnari í slaginn. Það er óþarfi að fara í eitthvað óþægilegt eins og gallabuxur, en að vera ekki í letigallanum breytir miklu. Þá er líka auðvelt að stökkva út í göngutúr eða ná í mat.