Birta Ísólfsdóttir fatahönnuður stofnaði nýverið fyrirtækið S. Stefánsson & Co. með kærasta sínum Kristjáni Pétri Sæmundssyni. Verkefnið hefur verið í stöðugri þróun undanfarið en S. Stefáns­son & Co. framleiðir einstaka hönnunarvöru sem hefur þá sérstöðu að vera einangruð með 100% sjálfbærum íslenskum æðardún.

„Merkið byggir á 60 ára fjölskyldusögu æðarræktar í Hrísey,“ segir Birta. „Á hverju ári tínum við fjölskyldan æðardún og okkur Kristján langaði að þróa aðrar vörur úr dúninum en sængur, líkt og hefur tíðkast hingað til. Nafnið á fyrirtækinu kemur frá afa hans Kristjáns sem hóf æðarrækt í Hrísey í kringum 1960 og við teljum okkur vera að halda lífi í hugmyndafræði hans um æðarrækt og fuglafriðun.“

Dúnninn kemur af villtum fuglum en honum er ýmist safnað þegar fuglinn hefur lokið útungun eða á síðustu dögum varpsins, án neiðkvæðra afleiðinga fyrir fuglinn sjálfan. „Varan er því eins umhverfisvæn og sjálfbær og hugsast getur. Auk þess hefur æðarfuglinn tilhneigingu til þess að sækja í landsvæði þar sem bændur gæta vistarvera hans og er æðarrækt því ótrúlegt samspil manna og villtra fugla,“ segir Birta.

Fyrstu vörur S. Stefánsson & Co. fara í sölu nú um helgina og eru það æðardúns­treflar sem koma í nokkrum litum. Þeir eru hlýir og léttir og henta vel fyrir íslenskt veðurfar.

„Við notum hágæða tæknileg efni í ytra byrði til að tryggja að einangrunin frá dúninum skili sér,“ segir Birta. „Ég hef verið að þróa vörulínuna í nokkurn tíma og ýmsar hindranir hafa verið á leiðinni. Framleiðslan okkar fer fram á Íslandi svo mér fannst tilvalið að byrja á einhverju einfaldara en jakka og datt þá í hug að gera trefla. Trefill er líka eitthvað sem er alltaf gott að eiga og þá sérstaklega hlýjan með margvísleg notagildi.“

Næstu vörur sem er að vænta frá Birtu og Kristjáni eru dúnvesti og -jakkar en svo munu þau hægt og rólega stækka vöruframboðið þegar á líður. Hægt er að nálgast vörurnar á heimasíðu þeirra, sstefansson.co, og í gegnum Facebook-síðu þeirra og Instagram. „Takmarkað framboð verður á öllum vörum okkar svo ég mæli með að fólk tryggi sér eintak. Síðan er þetta líka fullkomið í jólapakkann,“ segir Birta að lokum.

Meira um efnið í Tilverunni, nýjum fréttahluta í fimmtudagsútgáfu Fréttablaðsins þar sem heilsu og lífsstíl verður gert hátt undir höfði.