Rómeó og Júlía
Þjóðleikhúsið
Höfundur: William Shakespeare
Leikstjórn og leikgerð: Þorleifur Örn Arnarsson
Leikarar: Ebba Katrín Finnsdóttir, Sigurbjartur Sturla Atlason, Arnar Jónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Bríet Ísis Elfar, Ernesto Camilo Aldazábal Valdés, Hallgrímur Ólafsson, Hilmar Guðjónsson, Jónmundur Grétarsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Rebecca Hidalgo, Salka Valsdóttir, Sigurður Sigurjónsson og Örn Árnason
Þýðing: Jón Magnús Arnarsson og Harpa Rún Kristjánsdóttir
Þjóðleikhúsið byrjar leikárið með látum. Verkefnum Þorleifs Arnar Arnarssonar fylgir ávallt eftirvænting enda er hann þekktur fyrir djarfa nálgun þar sem fátt er heilagt, sérstaklega klassíkin. Í þetta skipti glímir hann við sjálfan William Shakespeare og táningaturtildúfurnar Rómeó og Júlíu.
Ásamt því að leikstýra Rómeó og Júlíu skrifar Þorleifur Örn leikgerðina. Hann hikar ekki við að hrófla hressilega við handritinu, eins og hans er von og vísa, með misgóðum árangri þó. Hinn frægi forleikur er með breyttu sniði, persónum er slegið saman, aðrar felldar út og lokafléttan endurofin, sem verður rædd síðar. Nýjum og ungum þýðendum á Shakespeare ber að fagna, Jón Magnús Arnarsson og Harpa Rún Kristjánsdóttir takast á við verkefnið af þori og tilraunamennsku, en gleyma samt ekki ljóðrænum hljómgrunni textans. Vonandi kemur þýðingin út á bók, þýðingar eftir nýja spámenn eiga til að gleymast.
Stríðandi fylkingar
Rómeó og Júlía koma kannski úr ólíkum stjörnukerfum en þráin eftir þögn í glundroðanum beinir þessum halastjörnum á sama sporbauginn, allt til endaloka. Sigurbjartur Sturla Atlason skakklappast svalur á sviðið með alla angist ungra manna á herðunum, sér og sigrar. Eftirminnileg frumraun í burðarhlutverki. Ebba Katrín Finnsdóttir styrkir stöðu sína sem ein áhugaverðasta leikkona sinnar kynslóðar. Sameiginlegar senur þeirra leiftra af barnslegri kæti og berskjölduðum tilfinningum sem persónurnar ráða illa við, en leikararnir hafa góða stjórn á, enda fjölhæf og fær.
Gengi Júlíu er túlkað á áhugaverðan máta af Ebbu Katrínu, Sölku Valsdóttur og Rebeccu Hidalgo. Gengi Rómeós er fjölmennara og óreiðukenndara. Hilmar Guðjónsson leikur Benvólíó lipurlega en Atli Rafn Sigurðarson stendur stundum til hliðar við Merkútsíó en á öðrum stundum kemst hann á flug, mögulega er ástæðan endurskrifaði karakterinn. Arnar Jónsson leikur Kapúlett, subbulegan Karl Lagerfeld undirheimanna, af mikilli kostgæfni og sýnir að yfirvegun getur virkað jafnvel betur en yfirdrifin orka. Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Nína Dögg Filippusdóttir leika konurnar í lífi Júlíu. Saman standa þær fyrir kvenerkitýpur sem fylla oft heim karlkynshöfunda: þjónustustúlka, móðir, hóra. Lakari leikkonur túlka þessar persónur eintóna en báðar leikkonurnar nálgast þessar konur með manneskjulegum húmor og harmi.
Hallgrímur Ólafsson leikur hinn hallærislega París af kómískum krafti. Uppáþrengjandi nærvera hans er smellin en stundum verður hún of yfirþyrmandi í sýningunni, slíkt er á ábyrgð leikstjórans. Jónmundur Grétarsson á klárlega heima á stóra sviðinu en rækta hefði mátt viðmót Tíbalts betur. Sigurður Sigurjónsson og Örn Árnason njóta sín í skondnum smáhlutverkum, en grallarainnskotinu fyrir hlé hefði mátt sleppa.
Himingeimur af hugmyndum
Þorleifur Örn á svo sannarlega ekki við hugmyndateppu að stríða en flóðinu verður að finna farveg. Ringulreiðin og sjónarspilið er heillandi en sýgur alltof oft kraftinn úr sögunni. Hinn örlagaríki bardagi sem hrindir lokaatburðarásinni af stað er lýsandi fyrir listræna nálgun Þorleifs Arnar, bæði kosti og galla. Grunnhugmyndin er sterk en söngur Parísar grefur undan alvörunni og samtvinnuð persóna prestsins og Merkútsíós gengur ekki upp (þá sérstaklega dauðdaginn). Af þessum sökum er ekki nægilegur drifkraftur til að endirinn hitti í hjartastað. Rómeó og Júlía skína skærast í þöglum myndum; fyrsta augnablikið þegar augu elskendanna mætast, Júlía viti sínu fjær af harmi í örmum fóstrunnar, Kapúlett lamaður yfir afleiðingum gjörða sinna …
Átök og mótsagnir einkenna leikmynd Ilmar Stefánsdóttur þar sem tækni og náttúra etja kappi. Moldarflagið er áhrifamikið, í því felst bæði líf og dauði. Búningahönnun Önnu Rúnar Tryggvadóttur og Urðar Hákonardóttur er neonlistaverk. Í heildina er myndbandsvinna Nönnu MSB og Signýjar Rósar Ólafsdóttur vel heppnuð, en samfélagsmiðlavísanirnar úr byrjun sýningarinnar fjara fljótlega út og sjást aldrei meir. Rök má færa fyrir því að sýningin sé nýi íslenski söngleikurinn sem beðið hefur verið eftir, enda leikur frumsamin tónlist stórt hlutverk. Tónlistarstjórnin er í höndum Sölku Valsdóttur og greinilegt er að hér eru á ferðinni töluverðir hæfileikar sem vonandi eiga eftir að blómstra enn meira. Flutningur og framkoma Bríetar Ísisar Elfar styrkir sýninguna, sömuleiðis danshönnun Ernesto Camilo Aldazábal Valdés og Rebeccu Hidalgo, partísenan kemst á annað svið með dansinum.
Samstundis er hjarta mitt órótt
Eftir því sem árin líða á fólk til að gleyma, viljandi eður ei, hversu agaleg unglingsárin geta verið. Hvað segir það um samfélag okkar að þekktasta ástarsaga hins vestræna heims sé saga af tveimur ofurástföngnum unglingum sem allir svíkja? Hver kynslóð á að mæta klassíkinni alveg upp á nýtt, endurspegla sig í henni og endurmeta. En nálgunin í sviðsetningu verður að vera heildstæð til að skila harmleiknum í heimahöfn og þrátt fyrir sterkan leikhóp nær ferðalagið ekki alla leið. Halastjörnurnar tvær skella á endanum ekki saman heldur fjara út. n
Niðurstaða: Fagurfræðileg ringulreið þar sem Rómeó og Júlía skína en þarfnast sterkari leikgerðar.