„Þetta er svona þannig séð atvinnutæki. Ég hef náttúrlega selt alveg fullt af myndum bara með því að pósta þeim þarna og þá fer síminn að hringja. Þannig að þetta er frekar bagalegt en síðan er náttúrlega líka partur af mér sem tekur þann pólinn í hæðina að það er bara ágætt að fá að sleppa alveg þessu djöfulsins Instagrammi.“

Þrándur segist ekkert vita hverjir standi að baki þessari freklegu yfirtöku og enn síður hvers vegna í ósköpunum. „Mér er það reyndar stórlega til efs að þetta séu einhverjir Íslendingar,“ segir Þrándur og hlær þegar þeim möguleika er velt upp að einhverjir sem hann hefur komið við kauninn á með verkum sínum standi þarna að baki. „Annað hvort er þetta bara einhver algóritmi eða eitthvert fólk í fjarlægum löndum.“

Hann segist jafnframt ekki hafa fengið neina lausnargjaldskröfu eins og gerst hefur meðal annars hjá aðsópsmiklum áhrifavöldum en eitthvað hafi verið um undarlegar skeytasendingar og hringingu úr torkennilegu símanúmeri.

„Maður er að verða hálf vænisjúkur út af þessu og það væri fínt að geta komist aftur inn á þetta blessaða gramm. Ég veit ekkert hvernig ég á að snúa mér í þessu. Ég var á fullu að reyna að komast inn án árangurs kvöldið og daginn eftir að þetta gerðist og svo er ekkert þjónustuver hjá Instagram, maður getur ekki talað við neinn,“ segir Þrándur sem þiggur gjarnan allar ábendingar frá fólki sem hefur lent í svona löguðu og viti jafnvel hvað er til ráða.