Ungir Sjálfstæðismenn, Framsóknarmenn og Jafnaðarmenn hafa undanfarna daga háð orrustu með kveðskap á samfélagsmiðlum. Félagar í ungmennasamtökum stjórnamálaflokkanna kváðust í vikunni á um líðandi stund og komu jólasveinanna til byggða.

Fréttablaðið ræddi við dr. Ragnar Inga Aðalsteinsson, hagyrðing sem hefur skrifað kennslubækur og fræðigreinar um bragreglur.

Sjálstæðismenn birtu fyrstir ljóð um Stekkjastaur til þess að mótmæla fjölmiðlafrumvarpi Lilju Alfreðsdóttur.

Ragnar Ingi hafði þetta um kveðskapinn að segja:

„Ljóð þau sem þú sendir mér eiga það sameiginlegt að þar er bragreglum ekki gert sérlega hátt undir höfði. Ef við skoðum vísurnar hverja fyrir sig verður niðurstaðan við fyrstu sýn eitthvað á þessa leið:

Stekkjastaur

kom fyrstur,

stinnur upp úr baði,

hann vil taka RÚV

af auglýsingamarkaði!

Hér er reyndar stuðlasetning ásættanleg í fyrri hluta vísunnar:

Stekkjastaur kom fyrstur

stinnur upp úr baði

Klasinn „st“ er á sínum stað í áhersluatkvæðum. Í seinni hluta vísunnar vantar alla stuðlun. Þar að auki er rímið langt frá því að vera ásættanlegt. Orðin: „markaði“ og „baði“ geta ekki rímað. Aukaáhersla, sem kemur á 3. atkvæði orða í íslensku, lendir hér á „i“ í „markaði“ og „a“ í –„aði“ verður áherslulétt. Í orðinu „baði“ er aðaláhersla á „a“ samkvæmt grunnreglu um áherslur í íslensku. Þess vegna verður þetta rím svona hræðilega álappalegt. Hvað varðar efnismeðferð þá vaknar spurning um það hvers vegna Stekkjastaur blessaður sé að koma úr baði. Var þetta einhver jólaþvottur?“

Daginn eftir svöruðu Framsóknarmenn í svipaðri mynt til stuðnings frjálsum fjölmiðlum og hafði Ragnar Ingi þetta að segja.

  1. Bestu vinir Samherja

bíða eftir Stúf.

Því hann ætlar að knésetja

bæði Kveik og RÚV.

„Hér er stuðlun, „b“ í „Bestu“ og „bíða“, væri þó betra að tveir stuðlar væru í fyrri línunni því að hún er það löng, en þetta sleppur (sbr. Stefán Ólafsson hér á eftir). Sama er í seinni hlutanum nema þar er höfuðstafurinn ekki á réttum stað. Hann á alltaf að vera í fyrsta áhersluatkvæði seinni línunnar.

„bæði Kveik og RÚV“ gæti t.d. verið „Kveik og líka RÚV“ og þá er þessi vísa vel ásættanleg.

Í Grýlukvæði Stefáns Ólafssonar er svipuð hrynjandi og hér sést og þar er stundum svona stuðlað, einn stuðull í fyrri línunni.

að þar sé komin Grýla

sem geta öngvir satt.

Á þriðja degi tóku Jafnaðarmenn upp á því að fordæma spillingu Sjálfstæðismanna og birtu því sitt kvæði. Ragnar Ingi hafði þetta að segja.

„Íhaldssleikjurnar í SUS

um spillinguna þegja.

Fyrir stórútgerðinni

þær sig bukka og beygja.

„S“-in í fyrri hlutanum, „sl“ í „sleikjurnar“, að ekki sé nú talað um „S“ í „SUS“ stuðla hreint ekki við „sp“ í „spillingunni“. Í seinni hlutanum er engin stuðlun heldur nema síðasta línan er sérstuðluð. Það gæti gengið ef hinar línurnar væru stuðlaðar líka, en því er ekki að heilsa.

Þola ekki gagnrýni.

Hata Helga Seljan.

Hata ríkismiðilinn

og vilja ólmir selj´ann.

Hér er einfaldlega engin stuðlun. Það að auki rímar „Seljan“ við „selj´ ann“. Þetta er nú ekki sérlega fallegt.

Stóran hlut í fjölmiðli

fékk í boði auðvalds.

Gjafmildur er Samherji

og spilltur er Eyþór Arnalds.

Hér er stuðlun í fyrri hlutanum, svipuð og bent var á hér að framan, einn stuðull og svo höfuðstafur, „f“ í „fjölmiðli“ og „fékk“. Þegar hrynjandin er svona þá er þetta ásættanlegt. Engin stuðlun er í seinni hlutanum. Ef ungir jafnaðarmenn halda að „Samherji“ og „spilltur“ stuðli þá er það mikill misskilningur (það geta samt verið tengsl milli þessara hugtaka, en þau eru ekki bragfræðileg). Hér kemur til regla um svokallaða gnýstuðla.

Þetta er það sem ég hef um þetta að segja. Ég bendi á að þetta unga fólk getur komið á námskeið hjá mér eftir áramótin og lært stuðlasetningu. Hún er ekki flóknari en það að meðalnemandi í 8. bekk grunnskólans lærir hana til hlítar í fjórum til fimm kennslustundum.

Ég sendi svo ungum og upprennandi stjórnmálastjörnum mínar bestu kveðjur.“