Snorri Aðalsteinsson hefur sent frá sér kvæðakver, eins og hann á kyn til, knúið áfram af krafti hagyrðingakvölda.
Vaðbrekkuættin úr Hrafnkelsdal á löndum austur getur ekki hætt að setja saman stökur. Það er henni eðlislægt að setja saman hnyttnar og gamansaman vísur, svo stundum svíður undan.
Þjóðfrægur var Hákon Aðalsteinsson, sá stórkostlegi hagyrðingur sem kvaddi 2009 – og Ragnar Ingi bróðir hans er líklega Íslendinga fróðastur um gamla og góða bragarhætti, en er aukinheldur völundur í vísnagerð.
Frændinn mætir til leiks
Bróðursonur þeirra, Snorri Aðalsteinsson, hefur nú sent frá sér bráðskemmtilegt kver með ljóðum og lausavísum, svo og efni af hagyrðingakvöldum sem hann hefur tekið þátt í á síðustu árum undir stjórn skagfirska skáldsins Hjálmars Jónssonar, þess rímnasnillings.
Og það hefur verið á þessum kvöldum, frammi fyrir hundruðum vísnaþyrstra áhorfenda, sem Snorri hefur öðlast sjálfstraustið, slíkar hafa viðtökurnar verið.
„Þótt Vaðbrekkumenn hafi alltaf verið þeirrar náttúru að vilja standa þar sem til þeirra sést, hef ég sjálfur, ef mig skyldi kalla, verið heldur lítið fyrir að trana mér fram,“ segir Snorri.
En hagyrðingakvöldin hafa sumsé hækkað hökuna.
„Ég er náttúrlega búinn að yrkja alla mína tíð, eins og ég á kyn til,“ rifjar vísnasmiðurinn upp. „Þetta er bara eitthvað sem maður ræður ekki við. Vísurnar verða bara til af sjálfu sér. Renna upp úr manni. Það þarf svo lítið til, vittu til. Kannski bara kankvíst samtal. Eða fugl á sveimi. Ský á himni,“ segir skáldið.
Þá var friðurinn úti
Hann var ekkert endilega á því að senda frá sér kver með kvæðum sínum. En Ragnar Ingi, föðurbróðir hans, komst í staflann, „og þá var friðurinn úti,“ segir Snorri. „Frænda mínum er svo annt um allan kveðskap að hann getur ekki unnt sér hvíldar fyrr en hann kemur honum fyrir almenningssjónir.“
Og því birtist nú landsmönnum bókin Gullvör eftir Snorra, en heiti hennar er dregið af hjartagóðum verndarvætti sem heldur til í Hrafnkelsdal. Sagan segir að hún sé búendum og börnum dalsins leiðarvísir þegar á þarf að halda. Vitji hún einhvers í draumi, viti það á gott.
Annars komi kvæðin hvaðanæva.
„Og stakan lifir góðu lífi, maður lifandi,“ segir Snorri og lygnir aftur augum. „Það fylgir henni einhver kynngikraftur,“ bætir hann við. „Þetta finnur maður svo glatt á hagyrðingakvöldunum. Ef endalínan hittir almennilega í mark þá springur salurinn. Fyndnin verður ekki fyndnari nema í góðri stöku,“ segir Hrafnkelsdælingurinn Snorri Aðalsteinsson frá Vaðbrekku.