Hagkaup hefur ákveðið að fresta Dönskum dögum í verslunum sínum um óákveðin tíma í ljósi aðstæðna.

Þeir greina frá málinu á Facebook-síðu sinni.

Það hefur sennilega ekki framhjá neinum þegar Danmörk tapaði með einu marki fyrir Frökkum á EM karla í handbolta í gær eftir að hafa haft töluvert forskot framan af í leiknum. Mikill fjöldi Íslendinga var, eins og gefur að skilja, í sárum eftir leikinn enda hefði íslenska landsliðið komist í undanúrslit með dönskum sigri.

Hagkaup virðist lesa landann og hefur tekið ákvörðun í samræmi við það. Yfir þúsund manns hafa líkað færsluna.

„Kæru viðskiptavinir. Í ljósi aðstæðna teljum við að landinn sé ekki alveg tilbúinn í Danska daga svo við höfum ákveðið að fresta þeim um óákveðin tíma.

Nánari tilkynning kemur síðar í takt við líðan þjóðarinnar.“

„Nánari tilkynning kemur síðar í takt við líðan þjóðarinnar.“
Mynd/Skáskot af Facebook-síðu Hagkaups

Þá voru fleiri sem fundu sig knúna til að bregðast við eftir úrslit gærdagsins. Veitingastaðurinn Jómfrúin bað þjóðina afsökunar í gær á Facebook-síðu sinni.

„Fyrir hönd dönsku krúnunnar býður Jómfrúin matargestum uppá einn danskan drykk að eigin vali í hádeginu á morgun, fimmtudag.

Svona rétt til þess að róa taugarnar...“

Íslendingar eru að vonum ansi svekktir eftir frammistöðu Danmerkur í leik sínum við Frakkland í gær. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, birti skjáskot af þingsályktunartillögu sem hann hafði verið með í undirbúningi eftir leikinn.

Hann leggur til að kóróna Kristjáns IX Danakonunds verði fjarlægð af Alþingishúsinu. Björn Leví segir hugmyndina þó ekki hafa komið í gær heldur fyrir þó nokkru.