Vöruúrvalið er afar breitt hjá okkur þegar kemur að jólagjöfum til starfsmanna. Við vinnum með nokkur þemu, erum til dæmis með ýmislegt í ferðalagið líkt og ferðatöskur frá Samsonite og Cerutti, töskuvogir og slíkt. Bjóðum upp á ýmsar vörur sem nýtast fólki í ræktinni, eins og íþróttatösku, snyrtitösku, handklæði og drykkjarbrúsa og erum svo með ýmiss konar útivistarfatnað, góðar dúnúlpur og jakka (skeljar),“ segir Árni Esra Einarsson markaðsstjóri og einn eigenda Margt smátt. Fyrirtækið hefur nærri þrjátíu ára reynslu á þessu sviði og því mikil þekking innanhúss þegar kemur að því að velja hentugar jólagjafir til starfsmanna. „Áherslurnar eru breytilegar eftir árum. Til dæmis voru matarkörfur mjög vinsælar rétt eftir hrun en þeim hefur fækkað aftur síðustu ár.“

Tvö þúsund sous vide græjur

Í fyrra slógu sous vide eldunargræjurnar í gegn og tvö þúsund slíkar fóru í jólapakka starfsmanna í gegnum Margt smátt. „Ég rakst á svona tæki á vörusýningu fyrir tveimur árum og fannst það mjög sniðugt enda er ég áhugamaður um eldamennsku. Á þessum tíma var þetta ekki komið á flug hér heima. Ég fann framleiðanda að góðu tæki en fannst við þurfa sérstöðu á þessum markaði og hafði því samband við Ragnar Frey Ingvarsson sem er betur þekktur sem Læknirinn í eldhúsinu. Ég hafði frétt af því að hann væri áhugamaður um þessa eldamennsku. Hann var tilbúinn að koma með okkur í að þróa tækið, prófaði það og svo gáfum við út uppskrifta- og leiðbeiningabók sem fylgdi hverju tæki,“ lýsir Árni Esra.

Í kjölfar vinsælda sous vide græjunnar og farsæls samstarfs Margt smátt og Ragnars Freys var ákveðið að bæta í og bjóða upp á breiðari línu í eldhúsið. „Við ákváðum að bjóða upp á fjórar nýjar vörur, svuntu, kokkahníf, skurðarbretti og vakúmvél. Ragnar Freyr hafði sterkar skoðanir á hverri vöru og við reyndum að uppfylla allar hans óskir. Niðurstaðan er frábærar vörur sem eru nauðsynlegar á hvert heimili.“

Sjá um allt frá a til ö

Fyrirtæki geta útfært gjafapakkana að eigin óskum. „Suma sem gáfu sous vide tæki í fyrra langar nú að bæta við skurðarbretti, hníf og svuntu. Aðrir eru að gefa mat og vilja fá hníf og bretti með. Það eru í raun allar leiðir færar í þessu,“ segir Árni Esra. Starfsfólk Margt smátt tekur einnig að sér að pakka gjöfunum inn fyrir fyrirtækin sem fá pakkana tilbúna til afhendingar í fallegum jólapappír eða jólagjafapoka. „Við sjáum því um þetta frá a til ö og fyrirtækin losna við allt vesen og hausverkinn sem þessu fylgir.“

Margt smátt þjónustar fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. „Við sjáum um fyrirtæki með fimm til tíu og upp í sjö hundruð starfsmenn. „Við settum okkur í samband við mörg stærri fyrirtæki landsins strax í vor en svo eru alltaf einhverjir sem fara íslensku leiðina og koma tíu dögum fyrir jól, við reddum þeim líka,“ segir Árni Esra glettinn. „Við bjóðum fyrirtækjum að koma til okkar í Margt smátt og skoða sýnishorn og fá ráðgjöf um hvað hentar.

Þegar fyrirtæki eru að hugleiða hvaða jólagjafir eigi að gefa starfsmönnum bendum við þeim oft á að í hugum þeirra sem fá gjöfina geti gjöfin verið mun meira virði en það sem fyrirtækin þurfa að borga fyrir hana. Sem dæmi þá kostar varan kannski 30 þúsund krónur út úr búð en fyrirtæki geta keypt hana hjá okkur á 10 þúsund krónur af því að varan er framleidd í meira magni og milliliðalaust.“

Nánari upplýsingar má nálgast áwww.margtsmatt.is.

Læknirinn fékk að komast upp með ýmsa stæla

Ragnar Freyr Ingvarsson, Læknirinn í eldhúsinu, er mikill áhugamaður um sous vide eldamennsku. Hann hefur unnið með Margt smátt að þróun vörulínu fyrir eldhúsið og valið nokkra hluti sem hann telur vera ómissandi í hvert eldhús.

Ragnar á stóran þátt í því sous vide æði sem reið yfir landið í fyrra. „Ég er líklega einn af fyrstu leikmönnunum sem fór að leika mér með sous vide tæknina en ég byrjaði að elda með slíku tæki fyrir fimm eða sex árum. Árni hjá Margt smátt kom að máli við mig fyrir rúmu ári. Hann hafði farið til Kína á vörusýningu og hafði fundið verksmiðju sem framleiddi mjög flott slík tæki. Hann bað mig um að prófa eitt. Ég fékk að pína tækið allt vorið í fyrra og sous vide-aði allan fjandann með því. Kom þá á daginn að þetta er hörkutæki,“ lýsir Ragnar sem skrifaði matreiðslubók og inngangshefti fyrir byrjendur sem fylgir hverju tæki frá Margt smátt.

„Þar sem þetta gekk alveg stórvel fórum við að velta fyrir okkur hverju fleira fólk gæti þurft á að halda. Ég kom þá með hugmyndir að vörum sem mér finnst nauðsynlegar í eldhúsum en það voru skurðarbretti, hnífur og góð svunta.“

Ragnar hafði mjög ákveðnar hugmyndir um útfærslu og gæði. „Árni leyfði mér að komast upp með ýmsa stæla. Ég lét til dæmis hanna brettið upp á nýtt, því ég vildi hafa það af ákveðinni þykkt og að það hefði tvíþættan tilgang. Að hægt væri að vinna með aðra hliðina í eldhúsinu og hina hliðina til að bera fram á því steikina.“ Efnin í svuntuna valdi Ragnar líka en fyrir valinu varð leður og sterkt „canvas“ efni. „Þegar kom að hnífnum fengum við að velja hönnun hans, handfang, lógó og áferð. Ég er mikill áhugamaður um hnífa og safna þeim. Ég hafði því pínu fyrirvara á því að fá hníf frá Kína. Svo kom mér mjög skemmtilega á óvart hversu vel okkur fórst hönnun hans úr hendi því þetta er hörkuhnífur,“ segir Ragnar sem er ákaflega sáttur við útkomuna.

Ragnar á mikið safn eldhúsgræja en getur alltaf á sig blómum bætt. „Mér finnst til dæmis alltaf gaman að eignast nýja fallega svuntu þó ég eigi nokkrar slíkar fyrir. Þá er alltaf gaman að eignast falleg og góð verkfæri.“

En óskar hann sér einhvers sérstaks í jólagjöf? „Helst myndi ég vilja stórubrandajól í faðmi fjölskyldunnar. Mér finnst besta jólagjöfin að fá að elda fyrir fjölskyldu mína.“ En mun hann sous vide-a jólamatinn? „Ég gerði jólahangikjötið í fyrra, bæði í ofni og sous vide. Það verður sous vide-að héðan í frá því það reyndist alveg klikkað.“