Eyður

Marmarabörn í samstarfi við Þjóðleikhúsið

Höfundar og flytjendur: Katrín Gunnarsdóttir, Kristinn Guðmundsson, Saga Sigurðardóttir, Sigurður Arent Jónsson, Védís Kjartansdóttir og Gunnar Karel Másson

Sviðsmynd og búningar: Guðný Hrund Sigurðardóttir

Tónlist: Gunnar Karel Másson

Við byrjum á endalokunum. Heimurinn undirlagður plasti og braki. Manneskjurnar utangátta. Síðastliðinn miðvikudag frumsýndu Marmarabörn sviðsverkið Eyður í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Marmarabörn hafa verið að hasla sér völl síðustu misseri og stíga nú fram sem einn áhugaverðasti og djarfasti sviðslistahópur landsins.

Hópurinn samanstendur af listafólki úr ýmsum kimum listanna, þar má telja myndlist, dans og leiklist. Þau vinna verkið í sameiningu og flytja saman. Ekki er hægt að tala um eiginlegan söguþráð, frekar samansafn hugmynda og svipmynda sem allar tengjast. Eyðilegginguna endurvinna þau og allt sem á sviðinu er í byrjun er notað til að skapa nýja heima af öryggi, húmor og taktfestu, þó hæg sé. Nálgun þeirra er glettin og frumleg og kemur stöðugt á óvart. Hver og einn meðlimur sáldrar persónutöfrum yfir sviðið, hver flytjandi hefur um leið sinn einstaka tón. Samvinnan einkennist af einstaklega fallegri hlustun og mýkt.

Gunnar Karel Másson hefur komið víða við, bæði sem tónskáld og meðlimur sviðslistahópa. Hann semur tónlistina, útsetur lög og styður Marmarabörn með lifandi tónlistarflutningi. Tónheimur hans smellpassar sýningunni, aflíðandi tónar í bland við barokk. Listræn vinna Guðnýjar Hrundar Sigurðardóttur færir sýninguna á annað plan. Orð fá varla lýst hugmyndaauðgi hennar. Hvert atriði ber með sér nýjan fagurfræðilegan brag. Fyrsta atriðið eftir hlé, þar sem Marmarabörnin endurfæðast sem plastfurðuverur, er ógleymanlegt. Sviðsmyndin er stórbrotin og umbreytir stóra sviðinu í afstæðan hliðarheim þar sem allt virðist mögulegt. Allar listrænar ákvarðanir styðja hver við aðra. Lýsing Halldórs Arnar Óskarssonar skyggir og lyftir upp atriðum, þá sérstaklega eftir hlé þegar myrkrið umkringir og einangrar þessar örvæntingarfullu verur.

Vinna dramatúrga er oft óljós og að mörgu leyti óskilgreind í íslenskum sviðslistum. En í Eyðum má greinilega sjá mikilvægi þessa hlutverks enda hnýtir Igor Dobricic hugmyndaþræðina fast saman og setur síðan fallega slaufu ofan á. Slíkt auga og handbragð er ómetanlegt þegar sviðshópur bæði semur og framkvæmir sýninguna.

Við endum á byrjuninni. Ekkert nema úthafið. Ölduniður. Tilvistin er hringrás af fæðingu og tortímingu, nema núna er mannveran að tortíma sjálfri sér á hraða sem aldrei áður hefur sést. Eyður verður einungis sýnd einu sinni enn og áhorfendur eru hvattir til að láta þennan viðburð ekki fram hjá sér fara. Þjóðleikhúsið á heiður skilið fyrir að hafa þor til að sviðsetja gjörning á borð við Eyður á Stóra sviði hússins. Framúrstefnan boðar það sem koma skal í listum og Marmarabörn boða aldeilis góða tíma.

Niðurstaða: Einstæð og eftirminnileg sýning.