„Nei, þetta er ekki fyrsta verkið sem ég set á svið,“ segir Inga létt í bragði, enda er hún öllum hnútum kunnug á sviði danslistarinnar og hefur komið að fjölmörgum verkum. Nú síðast var henni hrósað í hástert af franska miðlinum Le Monde og bandaríska miðlinum Financial Times fyrir dans sinn og söng í sýningu sem frumsýnd var á stærstu listahátíð Evrópu, Festival D'Avignon.

Pönkið innblásturinn

Fréttablaðið náði tali af Ingu Huld þar sem hún var á fullu við undirbúning sýningarinnar. Hún viðurkennir að það sé brjálað að gera um þessar mundir, enda allar stíflur að bresta eftir að öllu var slegið á frest í heimsfaraldrinum. Það er í ágætum takti við efnistök sýningarinnar.

Í verkinu er leitast við að um­breyta ástandi óreiðu og ömurleika í rými til að tengjast, dreyma, íhuga, dansa og leika, eins og því er lýst á Facebook-viðburði sýningarinnar.

Þar segir að Neind Thing byggi á þrá okkar til þess að frelsast frá öngþveiti nútímans, vonleysi gagnvart distópískri framtíð, stöðugu áreiti miðla og ekki síst þversagnakenndum og athyglisstelandi netheimi. „Leikurinn er: Neitið og þér munið finna; nýja neind, nýtt zen, nýjar leiðir, nýja vini, ný lönd, nýjar hugmyndir, nýtt everything!“

Inga segir margt hafa verið sér innblástur, meðal annars pönkveröld danslistarinnar sem hún kynntist í gegnum vinkonu sína. „Í pönkhreyfingunni er þetta resistance og neitun svo mikilvægt, þessi aksjón að neita og segja nei. Mér fannst það svo sterkt og upplifði þetta sterkt í kringum ákveðna senu og þá fór ég að hugsa hvað það er mikilvægt,“ segir Inga.

Í verkinu verður óreiðu og ömurleika breytt í rými til að tengjast, dreyma, íhuga, dansa og leika.
Fréttablaðið/Aðsend

Valdeflandi neitun

Hún setur þetta í samhengi við stress nútímans. Neitunin sé svarið. „Andstæðan við stress og overload, að segja já við öllu, þegar heimurinn er orðinn svo brjálaður að maður upplifir að maður þurfi að taka allt inn. Og mér fannst þessi orka í pönkinu passa svo vel inn í þetta,“ útskýrir Inga.

„Þar er eitthvert leyfi til að segja bara nei, takk. Því í nútíma heimi er svo mikið áreiti alls staðar og manni finnst eins og maður þurfi að vera hundrað manneskjur á sama tíma og allir þekkja þetta.“

Hugmyndin hafi verið að leika sér með þetta ætlaða samþykki. „Því við erum alltaf að taka allt inn,“ segir Inga. Málið snúist um að losa sig við þá hugsun. „Eða orku sem við viljum ekki hafa, ganga með eða taka þátt í. Að finna að við höfum þetta val, að við höfum val um að vera á samfélagsmiðlum eða ekki.“

Smalla ávöxtum

Inga segir aðspurð sýninguna smellpassa í nútímann, enda brjálað að gera hjá sviðslistafólki eftir Covid. Umrædd orka verður leyst úr læðingi á ýmsan hátt.

„Bæði í gegnum ákveðinn dans og líka í gegnum leiki, við höfum til dæmis tekið æfingar sem gerðar eru til að losa líkamann við tráma. Svo höfum við leikið okkur að því að fá útrás eins og maður myndi gera á pönktónleikum,“ útskýrir Inga.

Þá koma ávextir við sögu. „Við erum líka með leikmuni til að fá útrás. Við erum að smalla ávöxtum á sviðinu og það er smá leiklist í því.“

Ávextir munu fá að finna fyrir því á sviðinu.
Fréttablaðið/Aðsend