Hertogaynjan af Sussex, Meghan Markle, segir að hún hafi ekki getað rætt við Opruh Winfrey árið 2018 í aðdraganda brúðkaups síns og Harry Bretaprins vegna bresku konungsfjölskyldunnar og skilyrða hennar. Þetta kemur fram í nýrri og síðustu klippunni úr viðtali hennar við Opruh, sem sýnt verður á sunnudag. Klippuna má horfa á neðst í fréttinni.
Eins og Fréttablaðið hefur greint frá nötra heimar konungsfjölskyldunnar nú vegna viðtalsins og þess sem Meghan og Harry munu greina frá. Slúðurmiðlar keppast við að fullyrða að kergja milli Vilhjálms og Harry sé nú mikil og segir Meghan hjá Opruh að konungsfjölskyldan hafi dreift ósannindum um hjónin.
Í viðtalinu spyr Oprah Meghan meðal annars að því hvers vegna hún hafi ákveðið að stíga fram á þessum tímapunkti og segja sína sögu. „Við erum á hinni hlið mikillar lífsreynslu og þess sem hefur gerst,“ segir hertogaynjan meðal annars.
„Við getum núna tekið okkar eigin ákvarðanir,“ segir Meghan. Hún segist ekki hafa haft neitt val þegar hún og Harry voru á mála hjá konungsfjölskyldunni. „Ég hafði ekkert val.“ Þá útskýrir Oprah í viðtalinu að hún hafi sóst eftir viðtali við Meghan í febrúar eða mars 2018, fyrir brúðkaup hennar. Meghan hafi svarað henni að það hafi ekki verið „réttur tími.“
Meghan útskýrir þá að konungsfjölskyldan hafi ekki gert henni kleyft að ræða við neinn án þess að hafa fulltrúa sinn með. „Ég gat ekki sagt já við þig þá, ég hafði ekkert val,“ segir hún.
„Sem fullorðinn einstaklingur sem lifði mjög sjálfstæði lífi var öðruvísi að verða þátttakandi í þessu heldur en ég held að fólk hafi ímyndað sér þetta og það er mjög frelsandi að hafa réttinn og forrétindin til þess að geta sagt; „Já, ég er tilbúin til þess að tala,“ að geta tekið þína eigin ákvörðun og talað fyrir sjálfan þig.“