Uppistandshópurinn VHS hafnar alfarið þeirra þróun sem er að eiga sér stað í íslensku viðskiptalífi, þar sem dagar sem byggja eingöngu á neyslu eru fluttir inn frá Bandaríkjunum og hafðir í hávegum eins og um hátíðir sé að ræða.

Þar nefnir Stefán Ingvar Vigfússon, grínisti og framkvæmdastjóri, sérstaklega afsláttardaga á borð við Singles’ day, Black Friday og Cyber Monday. Hann segir þar um að ræða úrkynjun. „Við í VHS mörkuðum skýra stefnu strax við stofnun hópsins, við tökum ekki þátt í innfluttum tilboðsdögum sem þessum. Uppistandshópurinn VHS mun hvorki bjóða afslátt af sýningum eða annarri þjónustu sem við bjóðum upp, né heldur munu meðlimir VHS nýta sér þá afslætti önnur fyrirtæki bjóða upp á.“

Stefán segir þetta snúast um virðingu. „Okkur þykir samfélagið einkennast meira og meira af virðingarleysi, fólk sýnir hvert öðru vanvirðingu, skoðunum hvert annars og með þessum innfluttu dögum sýnir markaðsfólk neytendum vanvirðingu. Það sýnir neytendum og það sýnir menningunni vanvirðingu, í stað þess að leita í nærumhverfið er allt flutt inn frá Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þetta er fyrir neðan okkar virðingu.“

Að endingu skýtur Stefán inn í að uppistandshópurinn muni fagna fullveldi Íslands með því að bjóða upp á góðan afslátt af sýningu hópsins. „Og bjóðast miðar á lægra verði en þeir hafa nokkurn tímann áður fengist keyptir á!“