Söngleikurinn og námsefnið Ævintýri Sædísar skjaldböku er nýlega kominn út hjá Menntamálastofnun. Ævintýrið gerist í undirdjúpum sjávar. Á vefnum mms.is hafa allir aðgang að því endurgjaldslaust. Hægt er að velja „útgefið efni“ og slá nafn söngleiksins þar inn.

Barnakór Fossvogsskóla og ellefu einsöngvarar úr Fossvogs- og Snælandsskóla syngja lögin en höfundur texta og tónlistar er Elín Halldórsdóttir tónlistarkennari. Hún lýsir hér efninu í nokkrum orðum.

Sagan byrjar á því að Nonni trúðfiskur og Sædís skjaldbaka eru að leika sér í feluleik niðri í fjöru og Sædís smýgur inn í gróður. Þar festist plasthringur um hálsinn á henni og annar um fótinn. Þá hætta þau í feluleiknum og mikil barátta hefst við að losna við hringina. Þar koma margir við sögu, flestir góðir en aðrir ekki.

Hvert er hættulegasta dýrið í sjónum? Það er hákarlinn. Allir óttast Harald hákarl.

En hvert er hjálpfúsast? Nonni trúðfiskur sem er vinur Sædísar skjaldböku. Hann er alger hjálparhella og leggur mikið á sig við að að reyna að bjarga henni. Hann fer í ferðalag með henni um djúpin til að leita að einhverjum sem getur losað hana úr plastinu. Þau hitta marga sem reyna að leggja þeim lið, þar eru skrautfiskar og hafmeyjar, þær eru níu talsins og eru kallaðar sírenurnar.

Hvort eru hafmeyjarnar vondar eða góðar? Þær eru góðar og hjálpa til við björgunarstarfið. Elsa hafmeyja fer með Nonna og Sædísi upp í fjöru að finna Krabba kló sem getur bitið sundur plasthringina. Svo kemur pabbi hennar og sækir hana.

Af hverju kemur pabbi hennar? Hafmeyjar mega ekki fara upp í fjöru því þá geta þær lent í svo miklum vandræðum. Fólk vill nefnilega veiða þær og rannsaka þær og sumir vilja setja þær í búr.

Hver er boðskapurinn í verkinu? Hann er sá að vernda hafið og hætta að henda plasti í það svo lífverurnar þar séu ekki í hættu staddar.