Einfaldar uppskriftir og góður heimilismatur á vikumatseðilinn einkenna matarblogg Tinnu Þorradóttur sem hún hefur haldið úti á slóðinni tinnath.is síðan síðasta vor. Auk þess að halda úti matarblogginu póstar hún matartengdum myndböndum á TikTok og Instagram við miklar vinsældir.

„Það er pínu fyndin tilhugsun að ég skuli halda úti matarbloggi því það er í raun svo stutt síðan ég kunni lítið sem ekkert fyrir mér í eldhúsinu. Ég byrjaði að prófa mig áfram í matargerð þegar við kærastinn minn fórum að búa saman árið 2017. Fyrir þann tíma hafði ég lítinn sem engan áhuga á matargerð yfirhöfuð. Ætli áhugi minn á matargerð hafi ekki kviknað út frá tacos. Það er eitt það besta sem ég fæ og svo ótrúlega einfalt að útbúa.“

Áherslur breyttust

Það eru nokkur ár síðan Tinna hóf að sýna frá lífi sínu á samfélagsmiðlum.

„Ég byrjaði á Snapchat árið 2015 og var upphaflega planið að sýna frá förðun þar sem ég var á þeim tíma nýútskrifuð sem förðunarfræðingur. Síðan þá hafa áherslurnar breyst mikið. Í dag sýni ég frá öllu milli himins og jarðar á samfélagsmiðlum en áherslan hefur verið mest á matartengt efni síðustu tvö árin. Ég sá fljótt að fólk virtist einmitt hafa áhuga einföldum uppskriftum og góðum heimilismat, uppskriftum sem eru ekki of flóknar og flestir ættu að geta eldað.“

Tinna og unnusti hennar eiga von á sínu öðru barni nú í september. FRÉTTABLAÐIÐ/HEIÐA

TikTok nær til stærri hóps

Eftir fjögur ár á Snapchat flutti hún sig um set og hóf að sýna frá förðun og matargerð á Instagram og síðar á TikTok.

„Ég hafði verið með TikTok-aðgang í um eitt ár þegar ég loksins fékk kjarkinn til að pósta sjálf myndbandi. TikTok nær til mikið stærri hóps heldur en Instagram. Það er samt sem áður erfitt að setja fingur á það hvaða myndband nær mikilli dreifingu. Ég pósta á Instagram daglega en TikTok þegar það hentar en reyni að hafa að minnsta kosti eitt nýtt myndband þar í viku. Þá er ég stundum að samvinna TikTok og Instagram og pósta myndböndum á TikTok sem ég er búin að pósta á Instagram áður. Þetta er búið að ganga mjög vel og ég er afar þakklát fyrir viðbrögðin.“

Ætlar að njóta lífsins

Tinna og unnusti hennar eiga von á öðru barni sínu í september og því býst hún við að næstu mánuðir verði rólegir hjá henni þegar kemur að matarblogginu og samfélagsmiðlum.

„Það er búið að vera mikið að gera hjá mér í sumar. Ég ákvað því að setja enga pressu á mig í fæðingarorlofinu og ætla mér að njóta mín eins mikið og ég get með litla krílinu. Þrátt fyrir það mun ég þó pósta einhverju af og til, bara ekki eins mikið af uppskriftum og áður.“

Áhugasamir geta fylgt Tinnu eftir á tinnath.is, á Instagram (@‌tinnath) og á TikTok undir Tinnathorradottir.

Lostætar og sykurlausar bananastangir með hnetusmjöri. MYND/AÐSEND

Tinna gefur lesendum hér þrjár einfaldar og góða uppskriftir.

Frosnar sykurlausar bananastangir með hnetusmjöri

Hér nota ég sykurlaust dökkt súkkulaði frá Valor sem gerir uppskriftina sykurlausa og vegan.

Bananar

Hnetusmjör

Salthnetur, gróft saxaðar

70% sykurlaust dökkt súkkulaði frá Valor

Skerið bananana til helminga og langsum í tvennt þannig að hver banani gefi fjóra bita. Smyrjið bananabitana með hnetusmjöri og stráið næst salthnetunum yfir bitana. Bræðið súkkulaðið og setjið yfir bananabitana. Setjið bitana inn í frysti í að minnsta kosti tvær klukkustundir áður en þið borðið svo að bananarnir séu orðnir ágætlega vel frosnir í gegn. Geymist í frysti.

Fjöldi banana, magn af hnetusmjöri, salthnetum og súkkulaði er algjörlega persónubundið og fer eftir smekk hvers og eins. Hægt að leika sér með þessa uppskrift og jafnvel skipta út hnetusmjöri fyrir möndlusmjör.

Mangó og quinoa-salat með sinneps­dressingu. MYND/AÐSEND

Mangó og quinoa-salat með sinnepsdressingu

Þetta salat er eitt af mínum uppáhalds. Það er lítið mál að leika sér með innihaldsefnin í salatinu og magnið er ekkert heilagt. Ef þið viljið vegan útgáfu má skipta út fetaostinum fyrir vegan fetaost.

Fyrir tvo

2,5 dl quinoa

1 tsk. grænmetiskraftur

1 mangó

1 paprika

½ gúrka

¼ rauðlaukur

10 kirsuberjatómatar

1 msk. sesamfræ

Fetaostur, má sleppa

Sinnepsdressing

1 dl. ólífuolía

1/2 dl Dijon sinnep

1/2 dl sítrónusafi

Sjóðið quinoa samkvæmt leiðbeiningum og kryddið með grænmetiskrafti. Skerið grænmetið smátt og setjið í skál. Hrærið saman innihaldsefnin í sósuna þar til allt hefur blandast vel saman. Þurrristið sesamfræin á pönnu þar til þau brúnast aðeins.

Ómótstæðilegt BBQ-blómkál. MYND/AÐSEND

Klístraðir vegan BBQ-blómkálsbitar

Ég keypti mér air fryer svo ég þyrfti ekki að djúpsteikja mat í mikilli olíu. Ef air fryer er ekki til á heimilinu má auðvitað djúpsteikja á gamla mátann upp úr grænmetisolíu þar til bitarnir eru gullinbrúnir. Það má skipta út kartöflum fyrir hrísgrjón.

Fyrir fjóra

1 miðlungs blómkálshaus

2,5 dl hveiti

2,5 dl plöntumjólk, ég notaði haframjólk

1 tsk. salt

1 tsk. laukduft

1 tsk. hvítlauksduft

5 dl Panko-brauðrasp (gæti þurft meira eða minna)

500 ml Sweet BBQ-sósa

Sætar franskar

1 poki frosnar sætar franskar

Salt eftir smekk

Hvítlaukssósa

2 dl vegan majónes

3 pressaðir hvítlauksgeirar

2 msk. sítrónusafi

2 tsk. salt

1 tsk. pipar

Klístraðir vegan BBQ-blómkálsbitar með sætum kartöflum. MYND/AÐSEND

Blómkál

Hitið air fryer-inn upp að 200 gráðum. Skerið blómkálið niður í munnbita. Blandið saman hveiti, plöntumjólk, salti, laukdufti og hvítlauksdufti í skál og hrærið saman. Deigið á að vera þykkt eins og pönnukökudeig. Setjið brauðraspið í aðra skál. Setjið blómkálið ofan í deigið og veltið svo upp úr brauðraspinum. Raðið blómkálinu í air fryer-körfuna og passið að hafa ekki of marga í einu. Hitið blómkálsbitana í tíu mínútur. Eftir fimm mínútur er þó gott að hrista aðeins körfuna svo að bitarnir snúist við og brúnist á öllum hliðum. Setjið í skál og veltið upp úr sætri BBQ-sósunni.

Sætar franskar

Hitið air fryer-inn upp að 200 gráðum. Hellið kartöflunum í körfuna og mega bitarnir fara ofan á hver annan. Hitið í tíu mínútur eða þar til endarnir eru farnir að dekkjast. Hristið körfuna aðeins til eftir fimm mínútur svo að kartöflurnar snúist við og brúnist á báðum hliðum. Saltið eftir smekk þegar þær eru tilbúnar.

Hvítlaukssósa

Blandið öllum hráefnunum saman í skál og hrærið.