Aðstandendur Gamanmyndahátíðar Flateyrar fengu þá stórsnjöllu hugmynd á dögunum að bjóða upp á keppni í gamanmyndagerð, en slík keppni fer fram ár hvert á hátíðinni. Þátttakendur fá þema til að vinna út frá og hafa svo 48 klukkustundir til að búa til gamanmynd.

Munum að hlæja

„Hugmyndin kviknaði um seinustu helgi,“ segir Eyþór Jóvinsson, stofnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar.

„Það eru sjálfsagt flestir að spá í hvað menn geta gert og hvernig maður getur hjálpað til á þessum skrítnu tímum, þegar flest það sem við teljum sjálfsagt er ekki svo sjálfsagt lengur. Ég fór að spá í það hvað ég hefði í mínu vopnabúri til að geta lagt mitt af mörkum og þar var nærtækast að grípa í húmorinn og gleðina, enda fátt sem er jafn mikilvægt núna á þessum tímum; að við munum eftir því að hlæja saman og gleðjast þrátt fyrir allt,“ segir hann.

Lið eða einstaklingar geta skráð sig til leiks á icelandcomedyfilmfestival.com fyrir klukkan 20.00 á föstudaginn. Frá og með þeim tíma hafa liðin 48 klukkustundir til að skila af sér tilbúinni gamanmynd.

„Keppnin er opin öllum og við hlökkum mikið til að fá myndir bæði frá krökkum sem og ömmum og öfum og allt þar á milli. Það geta allir tekið upp einfalda stuttmynd á símann sinn. Þetta þarf ekki að vera flókið, bara fyndið. Það er líka til mikils að vinna því að Reykjavík Foto ætlar að gefa glæsilega myndavél í verðlaun fyrir það lið sem gerir fyndnustu gamanmyndina að mati landsmanna,“segir hann.

Vonast eftir góðu sumri

Þá verða einnig bestu gamanmyndirnar úr keppninni sýndar á Gamanmyndahátíð Flateyrar sem verður haldin í fimmta sinn í haust, dagana 13. til 16. ágúst.

„Hátíðin hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár enda er hátíðin án efa fyndnasta kvikmyndahátíð Íslands. En þetta ástand hefur auðvitað sett mikið strik í öll mín plön. Bæði var ég að vinna að verkefnum núna í vor sem voru blásin af. Svo rek ég gömlu bókabúðina á Flateyri sem er gríðarlega vinsæll ferðamannastaður og það er allt í mikilli óvissu eins og er í þeim málum. En maður vonar auðvitað bara að þetta ástand lagist hratt og örugglega þannig að við fáum gott sumar.“

Eyþór var að vinna í borginni fyrir stuttu en eftir að ástandið breyttist ákvað hann að halda heim til Flateyrar.

„Þar er stemmingin aðeins eðlilegri en í Reykjavík, þar sem allt er smá á hliðinni. Hér á Flateyri eru menn rólegri þrátt fyrir að lítið sé auðvitað um samkomur og slíkt. Helstu áhrifin á Flateyri eru þau að sundlaugin er lokuð, sem margir gráta. Annað gengur sinn vanagang enda er allt í meiri hægagangi á landsbyggðinni en í Reykjavík svo að viðbrigðin eru minni hérna,“ segir Eyþór.

Hann segir undirbúning þó hafinn fyrir næstu hátíð og Eyþór er bjartsýnn á að allt verði komið í eðlilegra form þegar nær dregur hátíðinni.

„Undirbúningur fyrir næstu Gamanmyndahátíð er í fullum gangi og við erum þessa stundina að bóka skemmtiatriði og aðra dagskrá. Við stefnum á sérlega veglega hátíð í haust enda má gera ráð fyrir því að landsmenn verði orðnir skemmtanaþyrstir og hafi mikla þörf fyrir hlátur og gleði.“

Þátttakendur í síðustu keppni ásamt leikstjóranum Arnóri Pálma.