Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, kynntist starfi Félagsstofnunar stúdenta fyrst þegar hann hóf nám í háskólanum og fór að nýta Bóksölu stúdenta. Síðan hefur hann unnið með stofnuninni á ýmsan hátt og verið í stjórn hennar síðastliðinn áratug.

„Ég byrjaði að vinna með FS þegar ég var ritstjóri Stúdentafrétta veturinn 1991-1992,“ segir Baldur. „En þar áður var ég líka byrjaður í stúdentapólitíkinni og þar var maður alltaf að ræða FS, því þetta er stofnun sem er rekin af stúdentum.

Svo hef ég verið í stjórn FS í um tíu ár. Það hefur verið gríðarlega lærdómsríkt að fylgjast með þessu frábæra starfi sem þar er unnið,“ segir Baldur.

„Þó FS sé kannski ekki mjög sýnilegt er það rosalega mikill hluti af háskólaheildinni. FS rekur til dæmis allar kaffistofur á háskólasvæðinu, sem skipta gríðarlega miklu máli. Umsvifin hafa líka stóraukist á síðustu árum með tilkomu Hámu, Stúdentakjallarans og nýjum stúdentagörðum,“ segir Baldur. „FS hefur tekið fullan þátt í uppbyggingu Háskólatorgs, sem er orðin miðja háskólasvæðisins, þar sem allir koma saman. Stúdentakjallarinn er líka frábær viðbót og þar eru viðburðir á næstum hverjum degi, bæði í hádeginu og á kvöldin. Ég get hreinlega ekki gert upp við mig hvort mér finnist skemmtilegra að sitja í Stúdentakjallaranum eða kaffihúsinu í Bóksölu stúdenta. Það er gríðarlega mikið úrval af fræðibókum í Bóksölunni og fátt skemmtilegra en að glugga í þær yfir kaffibolla.

Ég hef alltaf virkilega gaman af því að sýna erlendum kollegum mínum háskólasvæðið og hápunkturinn á þeirri skoðunarferð er alltaf að sýna Háskólatorg, Bóksöluna og Stúdentakjallarann,“ segir Baldur. „Þar hefur maður allt sem háskólasvæði á að samanstanda af og það öfunda margir okkur af þessu svæði.

Það hefur líka verið frábært að fá að taka þátt í uppbyggingu stúdentagarðanna. Það er búið að byggja margar nýjar byggingar á undanförnum árum og við höfum haft það að leiðarljósi í þessum nýbyggingum að byggja samfélag,“ segir Baldur. „Að fólk deili aðstöðu og geti bæði fengið afþreyingu, vinnuaðstöðu og næstum alla þjónustu á háskólasvæðinu. Þess vegna höfum við til dæmis komið á fót leikskólum. Það skiptir svo miklu máli að fólk upplifi að það sé hluti af samfélagi, háskólasamfélaginu, á meðan það er í náminu og það held ég að hafi tekist vel.“

Þessi grein birtist fyrst í sérblaðinu Félagsstofnun stúdenta í 50 ár sem fylgdi með Fréttablaðinu.