Birna Sif Kristínardóttir og Bryndís Ottesen hafa sett á laggirnar hlaðvarpsþættina Brestur, sem fjalla um ADHD hjá konum.

Þær segja báðar frá því hvernig þær hafa alla tíð vitað að þær væru eitthvað öðruvísi, án þess þó að hafa áttað sig á því hvað það væri.

„Það virðist algengt að konur með ómeðhöndlað ADHD virðist ná að plumma sig ágætlega framan af, þó alltaf með meiri fyrirhöfn en þeir sem ekki eru með ADHD,“ segir Bryndís.

„Þegar lífið verður flóknara svo sem með börnum og öðrum skyldum verður erfiðara fyrir konur að halda öllum boltum á lofti. Það er því algengt að þessar konur upplifi mikla streitu, lendi jafnvel í kulnun og fái greiningu upp frá því,“ segir Birna og bætir við að konur geta geta upplifað erfiðar tilfinningar í kjölfar greiningar.

„Stundum upplifir maður að vita ekki hver maður er þar sem þær hafa alltaf verið að spegla hegðun annara til að reyna að falla inn í hópinn auk þess sem sjálfstraust þeirra sem fá greiningu getur verið ábótavant,“ segir Birna.

Fengu greiningu eftir þrítugt

Vinkonurnar eiga það sameiginlegt að hafa fengið ADHD greingu eftir þrítugt og kynntust meðal annars á námskeiði um ADHD hjá konum. „Við komumst reyndar nýlega að því að leiðir okkar hafa legið saman allnokkrum sinnum áður, en það að við höfum ekki munað eftir hvor annarri má eflaust skrifa á ADHD,“ segir Bryndís.

„Það að fá greiningu á fullorðinsaldri virðist algjörlega heltaka mann, enda fær maður loksins svör við svo mörgu sem hefur reynst manni erfitt eða óskiljanlegt alla ævi. Við tengjum því báðar við að hafa óbilandi þörf til að fræða okkur um ADHD og ekki síður ræða það. Þó svo að ADHD geti fylgt allskonar hömlur, þá má ekki gleyma því að hægt er að snúa flest öllu upp í styrkleika,“ upplýsir Bryndís og heldur áfram: „Um leið og hugmyndin kom upp duttum við báðar í svokallaða ofureinbeitingu (e. hyperfocus), og tíu dögum síðar var fyrsti þátturinn okkar kominn inn á hlaðvarpsveitur.“

Að sögn vinkvennanna hafa hvorug þeirra reynslu af hlaðvarpsgerð. „Við vorum komnar í stúdíó áður en við vissum af og farnar að klippa þætti, hljóðblanda stef og koma okkur inn á allar helstu veitur,“ segir Birna og bætir við að dass af hvatvísi og ofur einbeitingu geti komið manni nánast í gegnum hvað sem er.

Konur greinast seinna

„Þó að ekki sé hægt að alhæfa um ólíkar birtingarmyndir ADHD á milli kynja þá er vitað að konur greinast oft á tíðum ekki fyrr en á fullorðinsaldri þar sem skimunarlistar hafa hingað til eingöngu tekið mið af ADHD hjá drengjum með ríkjandi ofvirkni, á meðan ofvirkni stúlkna og kvenna er oft eingöngu staðbundin í huganum,“ upplýsir Birna og tekur Bryndís orðið: „Stelpur virðast oft eiga auðveldara með að aðlaga sig að aðstæðum og spegla hegðun jafnaldra og getur röskunin því oft verið falin öðrum.“

Fræðsla hjálpar

Að sögn vinkvennanna eru þættirnir léttir og skemmtilegir, en þær lærðu á fyrrnefndu námskeiði að húmor og hressleiki sé mjög oft einkennandi fyrir fólk með ADHD. „Okkur finnst við auðvitað einstaklega fyndnar og hlæjum mikið,“ segir Bryndís og þær skella upp úr.

„Þó að við eigum það til að fara um víðan völl í þáttunum er ætlunin að varpa ljósi á þekkt ADHD einkenni í hverjum þætti samhliða því að einblína á styrkleika sem fólk með ADHD býr oftar en ekki yfir,“ upplýsir Birna og bætir við að þær stefna á að fá til sín fróða gesti.

„Við vitum á eigin skinni hvað fræðsla hjálpar mikið þegar maður kemst allt í einu að því að maður er með öðruvísi stýrikerfi en flest allir aðrir,“ bætir Bryndís við.

Þættirnir koma út alla þriðjudaga og má hluta á þættina í spilaranum hér að neðan: