Er­lendir ferða­menn sem hyggjast eða eru nú þegar að sækja Ís­land heim virðast ein­hverjir hafa tölu­verðar á­hyggjur af því að eld­gosið í Mera­dölum sé við það að klárast og að þeir muni missa af því að bera það augum. Aðrir virðast engar á­hyggjur hafa og gera stólpa­grín að málinu öllu.

Þetta má sjá á heitum þræði í Face­book hópnum „Tra­vel Iceland“ þar sem hafa skapast fjörugar umræður um málið. Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá hafa ferða­menn verið dug­legir að nýta grúppuna, meðal annars í um­ræður um það hvernig best er að ganga örna sinna á gos­stöðvunum.

„Er eld­gosið að deyja?“ spyr sá sem hefur máls á þessu. Frétta­blaðið ræddi fyrr í dag við Magnús Tuma Guð­munds­son, jarð­fræðing sem segir að blikur séu á lofti og að dregið hafi úr hraun­flæði í Mera­dölum.

Magnús segir þó erfitt að draga á­lyktanir um hvað ná­kvæm­lega eigi sér stað. „Gos­opið er orðið eitt en samt er það ekkert kröftugra. Þannig þetta fellur í raun saman við það sem maður hefur séð. En þó er mjög erfitt að draga fullar á­lyktanir af slíku sjón­mati. En þess vegna eru mælingar svo mikil­vægar.“

Brandara­karlar í essinu sínu

Fyndnir ferða­menn hafa keppst við að svara upp­hafs­manni inn­leggsins á Face­book hópnum.

„Vegna hnatt­rænnar hlýnunar og um­hverfis­á­hrifa hafa ís­lensk stjórn­völd á­kveðið að slökkva á því eftir næstu helgi. Það gæti verið að þeir kveikji stutt­lega á því aftur um jólin,“ svarar einn í gríni í at­huga­semd sem hefur vakið mikla at­hygli.

„Þeir slökkva á því klukkan tvö allar nætur til þess að fylla það aftur,“ svarar annar. „Því líður illa og hefur verið að kasta upp undan­farna daga, ef læknir sinnir því ekki þá gæti það dáið,“ skrifar þriðji sjálf­skipaði grín­istinn.

„Ég ætla að mæta í jarðar­för gossins,“ skrifar sá fjórði. Annar svarar: „Mun eld­gosið láta brenna sig?“