Bandaríski leikarinn Armie Hammer hefur ákveðið að hætta við að leika aðalhlutverkið í kvikmyndinni Shotgun Wedding á móti Jennifer Lopez. Ástæðan segir hann að sé illvkittnar árásir gegn sér á netmiðlum, að því er fram kemur á vef Variety.
Þar kemur fram að skjáskot af meintum skilaboðum Hammer af Instagram hafi skyndilega farið í dreifingu á samfélagsmiðlum síðustu helgi. Þar leit meðal annars út fyrir að leikarinn hefði viðurkennt að hann væri mannæta og að hann væri til í að drekka blóð þess sem fékk skilaboðin.
Skjáskot af meintum skilaboðum leikarans má sjá hér að neðan en í frétt breska slúðurmiðilsins DailyMail segir að kona nokkur með Instagram aðganginn House of Effie hafi farið að dreifa skjáskotunum síðustu helgi. Fullyrðir konan að leikarinn hafi sent sér skilaboðin milli október 2016 og febrúar 2020.
„Ég er 100% mannæta. Ég vil borða þig,“ á leikarinn að hafa sent konunni. Hann á þá næst að hafa viðurkennt að hann hafi aldrei sagt slíkt áður. „Ég verð að drekka blóðið þitt. Hvers vegna þessi fjarlægð?“ á hann einnig að hafa sent henni.
Í tilkynningu segist Hammer ekki ætla að tjá sig um skilaboðin, um sé að ræða helbert bull. „Ég mun ekki svara þessum fáránlegu staðhæfingum en í ljósi þessara illgjörnu netárása gegn mér, get ég ekki með góðri samvisku yfirgefið börnin mín í fjóra mánuði til að taka upp kvikmynd í Dóminíska lýðveldinu,“ segir leikarinn.
Hann segist þakklátur fyrir stuðning Lionsgate kvikmyndaversins, framleiðanda myndarinnar. Haft er eftir talsmanni fyrirtækisins að Hammer hafi sjálfur beðið um að fá að stíga til hliðar og að fyrirtækið hafi orðið fyrir því.
