Hæsta­rétta­dómarinn Markús Sigur­björns­son lét af störfum þann fyrsta októ­ber síðast­liðinn eftir 25 ára við­dvöl við réttinn en þetta kemur fram á vef Hæsta­réttar Ís­lands. Markús hafði setið við réttinn frá fyrsta júlí 1994 en um er að ræða þriðju lengstu setuna við réttinn á eftir setu Gizurs Berg­steins­sonar frá árinu 1935 til 1972, og Þórðar Eyjólfs­sonar frá 1935 til 1965.

Að­spurður um hvað hann sjái þegar hann líti til baka á feril sinn sagði hann að anna­tímar í fram­haldi banka­hrunsins hafi staðið upp úr. „Gleði­lega hliðin á því var að missa ekki niður skil­virknina, jafn­ó­venju­leg, mörg og um­fangs­mikil og þau mál voru. Frá mínum bæjar­dyrum séð var þar unnið þrek­virki,“ sagði Markús í við­tali og bætti við að skemmri af­greiðslu­tími mála hafi einnig verið mikils virði fyrir sam­fé­lagið.

Tölu­verður fjöldi mála

„Eftir því sem ég fæ best séð sat ég í dómi í 4885 málum á þessum 25 árum,“ sagði Markús en hann sagði tölu­vert hafa breyst á þessum tíma bæði hvað varðar starf­semi og vinnu­brögð hæsta­réttar. Þá sagði hann að mála­fjöldi hafi aukist tölu­vert en þegar hann byrjaði þá var mála­fjöldinn um 450 á ári.

„Fyrir breytingarnar með til­komu Lands­réttar á árinu 2018 var ár­legur mála­fjöldi orðinn á bilinu 850 – 890, en dómara­fjöldinn nánast sá sami, svo þetta tvö­faldaðist eigin­lega á tíma­bilinu,“ sagði Markús og bætti við að í seinni tíð hafi málin orðin flóknari og um­fangs­meiri. Hann sagði mála­tegundir fara í bylgjum og að viss mál, eins og meið­yrða- og skatta­mál, hafi verið meira á­berandi á tíma­bilum.

Var borgar­fógeti og prófessor áður en hann varð dómari

Markús fæddist í Reykja­vík árið 1954 en hann hóf laga­nám eftir að hafa tekið stúdents­próf frá Mennta­skólanum við Tjörnina. Hann lauk laga­námi við Há­skóla Ís­lands árið 1979 og fór síðan í fram­halds­nám í réttar­fari við laga­deild Kaup­manna­hafnar­há­skóla fram til ársins 1981 þegar hann tók við starfi sem dómara­full­trúi við borgar­fógeta­em­bættið.

Hann varð borgar­fógeti í Reykja­vík árið 1985 og sinnti því starfi til ársins 1988. Næstu sex ár starfaði Markús sem prófessor við laga­deild Há­skóla Ís­lands en hann hafði einnig áður verið stunda­kennari frá 1984. Þá vann hann einnig að smíð all­margra frum­varpa til laga sem tengdust að­skilnaði dóms­vald og fram­kvæmdar­valds sem leiddu af sér nýja dóm­stóla­skipan í héraði sem komst á árið 1992.

Frá því að Markús tók við starfi dómara árið 1994 hefur hann verið for­seti réttarins í sjö ár, árin 2004 og 2005 og síðan 2012 til 2016. Auk þess að hafa verið for­seti var hann vara­for­seti árin 2002 og 2003.