Snæbjörn Brynjarsson og Heiðar Sumarliðason, þáttastjórnendur hlaðvarpsins Eldur og Brennisteinn, hafa ákveðið að hætta með hlaðvarpið í kjölfar gagnrýni á ummæli sem voru látin falla í þættinum.

Líkt og greint var frá í gær lásu þeir upp lýs­ingu manns sem sagði það hafa verið stundað af heima­mönn­um í Vest­manna­eyj­um að not­færa sér ölv­un kvenna til þess að brjóta á þeim kyn­ferðis­lega. „Það er eins og það sé ein­hver svona íþrótt inn­fæddra að nauðga kon­um… Sem koma frá meg­in­land­inu,“ var svo sagt í þættinum. Þeir báðust afsökunar en hafa nú ákveðið að hætta með þáttinn.

„Eftir að hafa rætt við fólk í Vestmannaeyjum, heyrt upplifun þeirra og farið yfir framgöngu okkar í þættinum langar okkur að ítreka afsökunarbeiðni okkar. Við fórum gjörsamlega yfir strikið og við skömmumst okkar fyrir framgöngu okkar í þættinum. Við viljum biðja alla íbúa Vestamanneyja auðmjúklega afsökunar,“ segir í yfirlýsingu sem birt er á Facebook-síðu hlaðvarpsins.

„Við höfum ákveðið að láta staðar numið með Eld og brennistein. Við erum einlæglega leiðir yfir þessu og vonsviknir með eigin framgöngu. Við vonum innilega að Vestmannaeyingar sjái að okkur þyki þetta í raunverulega leitt og að við viljum axla ábyrgð á þessum mistökum okkar.“ Undir þetta skrifa þeir báðir.

Bæjarstjóri segir farið yfir öll velsæmismörk

Ummælin hafa verið harðlega gagnrýnd, þar á meðal af Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra Vestmannaeyja, sem segir í færslu á Facebook að þarna hafi verið farið yfir öll velsæmismörk. „Í þættinum „Eldur og Brennisteinn“ var farið yfir öll velsæmismörk gagnvart samfélagi okkar hér í Eyjum og það stimplað sem einhverskonar griðastaður fyrir kynferðisbrotamenn,“ segir Íris.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja

Hún tekur afsökunarbeiðni þeirra til greina. „„Það er eðlilegt að okkur svíði þegar Þjóðhátíðin okkar og samfélagið allt verður fyrir illu, ósanngjörnu og jafnvel meinfýsnu umtali af þessu tagi. En við látum það ekki beygja okkur heldur styrkja. Tökum saman höndum, færum umræðuna á hærra plan, berjumst saman af öllu afli gegn ofbeldi og pössum uppá hvert annað!“