Dýralæknar í Bretlandi hafa sent út viðvaranir til gæludýraeigenda núna fyrir páska til að hvetja þá til að passa vel upp á súkkulaði og annað sem getur farið illa í dýrin. Dýralæknar segja að eitrunartilfellum fjölgi um páska og á jólum og af því að það hafa orðið til margir nýir gæludýraeigendur í faraldrinum og við eyðum meiri tíma heima en vanalega, sé hættan óvenjumikil í ár.

Landssamband breskra dýralækna sendi út viðvörun eftir könnun, sem leiddi í ljós að 80% dýralækna höfðu séð að minnsta kosti eitt tilfelli súkkulaðieitrunar í aðdraganda páskanna 2019, en 54% höfðu séð þrjú tilfelli eða fleiri á sama tímabili. Könnun frá Royal Canin sýndi líka að fjórðungur breskra gæludýraeigenda taldi að allur mannamatur væri öruggur fyrir hunda.

Hröð viðbrögð skipta máli

„Það er mikilvægt að muna að skilja ekki sælgæti eftir á glámbekk. Kettir og önnur gæludýr eru síður líkleg til að borða súkkulaði en hundar, en þau geta samt líka orðið fyrir súkkulaðieitrun,“ segir Daniella Dos Santos, varaforseti landssambands breskra dýralækna. „Ef þig grunar að gæludýrið þitt hafi borðað súkkulaði skaltu strax hafa samband við dýralækni. Því fyrr sem dýrið fær faglega umönnun, því betra.“

Dýralæknirinn Dave Leicester sendi sérstaka viðvörun til þeirra sem eiga gráðuga hunda sem gera allt sem þeir geta til að borða. Hann segir að það sé aldrei of varlega farið.

Það er líka mikilvægt að börn séu meðvituð um hættuna, svo þau skilji ekki súkkulaði eftir þar sem hundur kemst í það.

Einkenni eitrunar

Hundar byrja yfirleitt að sýna merki súkkulaðieitrunar innan 12 klukkustunda, en þau geta varað í allt að þrjá daga. Fyrstu einkenni súkkulaðieitrunar hjá gæludýrum eru óhóflegur þorsti, uppköst, niðurgangur og eirðarleysi. Þetta getur þróast út í ofvirkni, skjálfa, óeðlilegan hjartslátt, ofhitnun og oföndun. Í alvarlegum tilvikum getur dýrið fengið flog, hjartsláttur getur orðið óeðlilegur og það getur jafnvel fallið í dá og látist.

En ef dýrið fær meðhöndlun snemma og það verða engar nýrnaskemmdir, eru batahorfur eftir súkkulaðieitrun almennt góðar, segir Dave Leicester.

Það sem þarf að passa

Súkkulaði af öllum gerðum er hættulegt fyrir hunda, því það inniheldur þeóbrómín og því dekkra, því hættulegra. Aðeins lítið magn getur valdið eitrun, sérstaklega hjá minni hundum og hvolpum.

Súkkulaði er ekki það eina sem gæti endað í hundskjafti og gert honum mein. Sælgæti sem inniheldur sætuefnið xylítól er líka eitrað fyrir gæludýr og mælt er gegn því að gefa hundum kjöt á beini. Hundar geta kafnað á beininu og beinflísar geta farið illa í þarmana og jafnvel stungið gat á magavegginn.

Skinka og lambakjöt er fituríkt og getur valdið meltingartrufl­unum, slappleika og hita í hund­um ef þeir borða of mikið og sósur geta verið til vandræða því þær innihalda stundum áfengi og eru oft mjög saltar. Það er líka hætta á að þær innihaldi lauk, sem er hættulegur fyrir bæði hunda og ketti.

Vorblóm eins og páskaliljur og aðrar liljur geta líka verið eitruð fyrir gæludýr, svo það er ekki sniðugt að hafa slík blóm í pottum inni á gæludýraheimilum.