Tónlistarkonan Britney Spears er hætt að fylgja systur sinni, Jamie-Lynn Spears, á Instagram. Þykir þetta vera til marks um þá sundrung sem er uppi í fjölskyldu Britney en eins og kunnugt er fékk hún sjálfræði á ný í nóvember síðastliðnum.
Í frétt E! News er þess getið að Britney fylgi aðeins 46 einstaklingum á Instagram. Á meðal þeirra er unnustinn Sam Asghari og náin vinkona hennar Paris Hilton. Jamie-Lynn er aftur á móti ekki lengur í þeim hópi þó að Jamie-Lynn fylgi enn systur sinni.
Heimildarmaður E! News segir að Britney líði eins og Jamie-Lynn hafi ekki stutt nóg við bakið á henni í baráttu sinni fyrir sjálfræði. Þær hafi um langt skeið verið bestu vinkonur en nú sé annað uppi á teningnum.