Burj Khalifa er hæsta mannvirki heims, 828 metrar. Framkvæmdir hófust í september 2004 en turninn var opnaður almenningi 4. janúar 2010 og hefur fengið margar viðurkenningar. Hann er 163 hæðir og getur fólk farið upp og virt fyrir sér Dúbaí og nálæga staði með undurfögru útsýninu. Í heiðskíru lofti er stundum hægt að sjá til Íran. Burj Khalifa er þó varla fyrir lofthrædda. Það er opið allan sólarhringinn og gestir dásama mjög að koma þarna á þeim tíma sem sólin sest til viðar. Risavaxnar byggingar sem löngum hafa verið frægar fyrir hæð sína eru smávaxnar miðað við Burj Khalifa og má þar nefna Eiffelturninn í París, Empire State eða CN-turninn í Toronto.

Í fyrstu átti turninn að heita Burj Dubai en nafninu var breytt til heiðurs forseta Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Khalifa bin Zayed Al Nahyan. Burj Khalifa turninn var hannaður af Adrian Smith og Owings & Merrill en fyrirtækið hannaði einnig Willis-turninn í Chicago og One World Trade Center í New York. Hönnunin er sótt til byggingarlistar á svæðinu eins og stóru moskunnar í Samarra.

Nýju ári er fagnað í Dubai með flugeldum frá hæstu byggingu veraldar.

Byggingin er sérstaklega hönnuð með tilliti til hitastigs í Dúbaí á sumrin. Það eru 57 lyftur í turninum og átta rúllustigar. Meira en 7.500 verkamenn komu frá Suður-Asíu til að vinna við bygginguna en þó nokkur gagnrýni kom fram á lág laun þeirra og illa meðferð. Til dæmis voru tekin af þeim vegabréfin þar til að verki loknu. Nokkur frömdu sjálfsvíg á byggingarstiginu.

Armani lúxushótel er í byggingunni en við hliðina er risastór gosbrunnur sem vaknar á kvöldin með vatnsbogum, ljósasýningu og tónlist. Hann mun vera mikið sjónarspil sem ferðamenn ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Þegar staðið er efst í Burj Khalifa er hægt að horfa á gosbrunninn frá allt öðru sjónarhorni. Gosbrunnurinn er 270 metra langur og vatnið frá honum spýtist upp í 150 metra hæð. Gosbrunnurinn nefnist Dubai Fountain.

Gríðarlegur fjöldi fólks heimsækir turninn og eykst frá ári til árs. Árið 2018 komu 1,87 milljónir í turninn. Svo virðist vera sem Þjóðverjar hafi verið fjölmennastir erlendra gesta, Bretar koma næstir, Indverjar og Rússar eru með svipaðan fjölda og þar fyrir neðan koma Ítalir, Kínverjar, Ástralar, Hollendingar og Frakkar. Flestir gestanna koma þó frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum.