Sjónvarpsmaðurinn Gísli Marteinn Baldursson segir að viðbrögðin við pólitískum gjörningi hljómsveitarinnar Hatara í gærkvöldi hafi ekki verið neitt tryllingsleg úti í Tel Aviv þar sem Eurovision fór fram í ár.

„Þau hafa svo sem ekkert verið eitthvað gríðarleg. Þetta stönt hjá þeim eða þessi gjörningur þeirra var eitthvað sem að RÚV hafði ekki hugmynd um að væri yfirvofandi,“ sagði Gísli Marteinn, sem lýsti keppninni í ár, í samtali við Sigmar Guðmundsson í Silfrinu á RÚV í morgun.

Útspil Hatara komi ekki á óvart

Hann segir RÚV hafa sest niður með Höturum og farið yfir reglurnar með þeim í aðdraganda keppninnar. Ákvörðun þeirra að veifa palestínskum fánum í beinni útsendingu þurfi ekki endilega að koma á óvart enda hafi hópurinn rætt þessi mál og sagt að ákvörðunin um að halda keppnina í Ísrael sé í sjálfu sér pólitísk.

„Ég held að raunverulega hafi það ekki komið neitt svakalega á óvart að Hatari hafi gert eitthvað með þessum hætti. Ég segi það fyrir mig að ég óttaðist alveg að það gæti komið eitthvað sem væri alvarlegra, drægi þyngri dilk á eftir sér en þetta mun gera,“ segir Gísli.

Allar ákvarðanir um afleiðingar eru í höndum Sambands evrópskra sjónvarpsstöða (EBU) sem sér um keppnina. Búið er að tjá Felix Bergssyni, fararstjóra íslenska hópsins, að málið verði tekið fyrir á fundi framkvæmdastjórnar sambands á komandi dögum.

Ekki í fyrsta sinn sem fánum er sveiflað

Gísli kveðst ekkert hafa heyrt um að Íslandi verði vikið úr keppni að ári og efast að afleiðingarnar verði svo drastískar. Hann vísar til þess að Norðmenn hafi til að mynda sveiflað fána Sama í undankeppninni á fimmtudag, en reglur keppninnar kveða á um að ekki megi sveifla fána ríkja sem ekki taka þar þátt.

Að sama skapi hafi deilur Armena og Asera ratað inn í keppnina áður án afleiðinga og þá hafi Madonna, nokkrum mínútum á undan Hatara, verið með palestínska fánann uppi á sviði.

„Þegar þetta er tekið í þessu samhengi finnst mér rosalega hæpið að reiði EBU muni lenda eitthvað harkalega á okkur,“ sagði Gísli Marteinn.