„Ætli hann hafi nokkurn tímann jafnað sig á því að hafa spilað með okkur?“ spyr Karl Örvarsson, söngvari Stuðkompanísins frá Akureyri, sem steig á svið með söngvaranum heimsfræga í Reiðhöllinni 1987. Meat Loaf lést í fyrradag, 74 ára að aldri, en óhætt er að segja að þar hafi fallið einn sá stærsti í tónlistarsögu Bandaríkjanna.

Stuðkompaníið átti á sínum tíma að hita upp fyrir Meat Loaf þegar hann hélt tónleika sína á Íslandi, en þegar þeir voru mættir suður kom babb í bátinn. „Við búum fjórir norður á Akureyri og þegar við mætum þá er okkur tilkynnt að það gefist ekki tími fyrir upphitun.

Þeir náttúrulega koma frá vesturströnd Ameríku, en við kvörtuðum yfir því að við værum nú komnir alla leið frá Akureyri til þess að taka þátt í þessu og að það kæmi bara ekki til greina að svona yrði farið með okkur,“ segir Karl hlæjandi.

Karl Örvarsson, söngvari Stuðkompanísins frá Akureyri.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Stífar samningaviðræður

Þetta kvöld hljóp Björn Þorláksson, umboðsmaður sveitarinnar, í skarðið fyrir Atla Örvarsson, bróður Karls, sem alla jafna lék á hljómborðið. „Hann fór þarna með himinskautum og tók ekki í mál að svona yrði farið með stórpopparana að norðan sem hefðu komið alla þessa leið,“ segir Karl.

Karl segir þá félaga síðan hafa farið í stífar samningaviðræður við goðsögnina. „Við hann Meat litla. Hann væri örugglega sprelllifandi ef þetta hefði aldrei gerst. Þetta hefur örugglega tekið mikið á hann,“ segir Karl í gríni.

Umboðsmaður Meat Loaf tjáði Stuðkompaníinu að ómögulegt væri að bæta þeim þetta upp. „Þetta fór nú svo á endanum þannig að þeir báru fyrir sig að það væri enginn tími í sárabót fyrir okkur. Okkur var samt tjáð að við gætum fengið snjósleða­bardaga þarna og svo gætum við fengið að taka lagið Johnny B Goode,“ heldur Karl áfram og hlær.

Hann segir þá félaga ekki hafa verið sérstaklega spennta í fyrstu, en svo ákveðið að slá til. „Þetta var stórkostlegt. Algjörlega stórkostlegt. Gaurarnir með blásna hárið frá Akureyri vappandi um sviðið einhverjir tveir, þrír, fjórir, á meðan Meat byrjaði Johnny B Goode,“ segir Karl í stuði yfir gömlum minningum.

Of stór biti

Hann segir að einhver skortur hafi verið á míkrófónum til að byrja með. „Þannig að við vorum bara orðnir svona hálfgerðir dansarar hjá honum. Á endanum náðum við nú einhvers staðar í míkrófón sem átti að vera í sambandi og ég svona sem fronturinn fæ einn míkrafón og byrja og tek alveg ægileeeeegt Johhny B Goode með honum Meat, í gríðarlegri stemningu.

Þarna vorum við bara Meat Loaf og Stuðkompaníið. Þetta var alveg sprenghlægilegt. Ég er ekki viss um að Meat Loaf hafi haft nokkuð út úr þessu en okkur fannst þetta alveg frábært. Svo bara hætti Stuðkompaníið ekkert löngu síðar. Ég held þetta hafi orðið hálfgerður banabiti hljómsveitarinnar,“ segir Karl, enn hlæjandi.