Sjötti þáttur af átta í sakamálaþáttaseríunni Svörtu sandar, verður sýndur á Stöð 2 á sunnudagskvöld. Leikstjórinn Baldvin Z segist hafa lagt upp með hægan bruna og hafi einhverjum þótt framvindan full hæg hingað til, þá má ætla að heldur fari að hitna í kolunum þegar síga fer á seinni hlutann.

Frásagnarmátinn sem kenndur er við „slow burn“ eða hægan bruna hefur verið vinsæll í sjónvarpsþáttum og bíómyndum undanfarið og Baldvini þótti þessi eldunaraðferð henta sýn sinni á Svörtu sanda ákaflega vel.

„Þetta er svolítið vinsælt núna, allaveganna hjá einhverjum, og það er fullt af fólki sem fílar það, en auðvitað skil ég líka fólk sem kveikir ekki á þessu. En ég er voðalega hrifinn af svona þegar verið er að búa til karaktera og mjatla í hlutunum,“ segir Baldvin.

„En svo endar þetta náttúrlega alltaf með einhverjum hryllingi,“ heldur Baldvin áfram og tekur undir að alltaf sé stefnt að einhvers konar ógn og skelfingu í lokin.

En svo spurt sé fyrir þá óþolinmóðu, fer eitthvað að gerast?

„Þetta er góð spurning,“ svarar Baldvin hlæjandi og segir skipta máli hversu vel sé kynt undir hæga brunanum. „Og ég ætla ekkert eitthvað að leggja mat á það hvort okkar sé vel gert eða illa gert. Ég er voðalega ánægður með það sjálfur og mér finnst mest vera að gerast í svona seríum þegar verið er að undirbyggja eitthvað. Skapa undiröldu með því ósagða og leyfa fólki að velta því fyrir sér hvað sé í gangi.

Og ef fólk hefur áhuga á karakterunum og vill vita meira, þá er maður að búa til undirstöðu sem gerir allt þess virði þegar hlutirnir fara síðan upp í flugeldasýninguna, eða hvað sem við viljum kalla þetta.“

Myrkur spennuróman

Baldvin segist alltaf hafa talað um Svörtu sanda sem „dark romantic thriller“ frekar en glæpaspennusögu, þótt hann viti ekki hvort slíkur merkimiði sé yfirleitt til. „En þetta er einhvern veginn forsendan sem við lögðum af stað með. Að þetta væri einhver svona „dark romantic thriller“-sería,“ segir Baldvin og lætur þess getið að sjálfur horfi hann ekki mikið á glæpaþætti.

Ég er voðalega ánægður með það sjálfur og mér finnst mest vera að gerast í svona seríum þegar verið er að undirbyggja eitthvað
Baldvin segir þau Steinunni Ólínu eiga ótrúlega fallegt og skemmtilegt samband en hún þykir fara á kostum í hlutverki móður aðalpersónunnar.
Mynd/Juliette Rowland

Hann hefur þó komið að gerð tveggja sakamálasería; Ófærðar og Réttar. „Ég var þannig lagað samt ekki með frá upphafi í þróun þessara verkefna og mig hefur alltaf langað að prufa að gera krimmaseríu sem mig myndi langa til að horfa á. Þannig að þar kemur þessi „slow burn“-pæling, að vera meira í dramanu, en ná samt einhvern veginn að, hvað á ég að segja? Vefja sakamálið inn í einhverja stærri dramasögu.“

Baldvin segist strax hafa fundið þetta í upphafspælingunni sem meðhöfundar hans, Ragnar Jónsson, og aðalleikkonan, Aldís Amah Hamilton, komu með.

„Mér fannst allaveganna þessi pæling, þótt hún hafi verið töluvert langt frá því sem hún endaði í, vera þannig að þarna gæti ég kannski komið inn og við gætum keyrt saman í þá átt að búa til þessa „slow burner“-krimmaseríu.

Andrúmsloftið og staðsetningin væru kannski eitthvað í anda þess sem ég var að hugsa. Ég varð rosalega spenntur fyrir þessu,“ segir Baldvin og bætir við að hann hafi ekki fundið alvöru innblástur fyrir gerð sakamálaseríu, fyrr en eftir að hann horfði á fyrstu þáttaröð True Detective. „Það var einhvern veginn virkilega vel skrifað og var svo sannarlega svona „slow burner““

Höfundar Svörtu sanda. aðalleikonan Aldís Amah, löggan Ragnar, og leikstjórinn Baldvin Z.
Mynd/Juliette Rowland

Lögregluaðstoð

Baldvin segir síðan ekki hafa skemmt fyrir að Ragnar er reyndur lögreglumaður og það hafi verið frábært að geta gengið að yfirburðaþekkingu hans við gerð Svörtu sanda.

„Bara að fá að vera inni í herbergi með manni sem veit allt. Allt saman. Og geta þá viljandi skrifað inn hluti sem eiga að fara illa hjá lögreglunni, en þá ekki vegna þess að við vissum ekki betur. Og það er búið að vera ógeðslega gaman að vinna með honum. Hann er alger gersemi þessi maður, sko.“

Það kom Baldvin nokkuð á óvat þegar Svörtu sandar urðu í síðustu viku einn af sex sjónvarpsþáttum sem valdir voru til frumsýningar á Berlinale-kvikmyndahátíðinni.

„Í raun og veru kemur þetta á óvart. Ég veit að þetta er ekki hefðbundinn krimmaþáttur og glæpaþættir hafa einhvern veginn ekkert verið að sigla inn í þennan frumsýningarpakka Berlinale,“ segir Baldvin sem þakkar heiðurinn einmitt ekki síst hinni óhefðbundnu nálgun.

„Og hvernig þættirnir eru einhvern veginn meira dramaþættir heldur en spennumorðsaga. Það féll greinilega mjög vel í kramið hjá þeim. Þessi „slow burner“-pæling hjá okkur. Þannig að það er bara ógeðslega gaman og þau voru bara rosalega hrifin og við fengum voðalega fallegan tölvupóst með viðbrögðunum frá Berlinale,“ segir Baldvin og lætur þess getið að Svörtu sandar voru fyrsta serían af þessum sex sem voru valdar á hátíðina úr hópi fleiri hundruð þáttaraða. „Það er skemmtilegt og svona smá boozt fyrir mann. Eftir margra ára vinnu.“