Kunnuglegum andlitum úr ljóðheimum brá fyrir þar sem hinn nýfráskildi Matti kvaldist undir ágengum upplestri á meintum leirburði í einu atriða fjórða þáttar Pabbahelga sem RÚV sýndi síðasta sunnudagskvöld.

Sonnettuskáldið Valdimar Tómasson var þar á meðal, drakk gott kaffi á setti en gefur ekkert fyrir kveðskapinn í senunni. „Ljóðlistin sem bar fyrir eyru þarna var svo hryllilega léleg að ef ég ætti að hlusta á þetta daglega myndi ég fyrr en ella þurfa að taka reglubundið hægðalyf,“ segir Valdimar um ljóðið Hugmynd að gjörningi sem Tryggvi Steinn Sturluson flutti í hlutverki skáldsins Nilla ljóðskálds.

Skáld bregða á leik

Sveinn Ólafur Gunnarsson leikur Matta sem lagði þessar þrautir á sig til þess að ganga í augun á nýju kærustunni, Önnu Júlíu, sem Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir leikur. Allt í kringum þau voru aukaleikarar, sumir hverjir í hlutverkum sem þeim eru eðlislæg, að leika skáld.

Þar bar einna mest á stórkanónunni Guðrúnu Evu Mínervudóttur, í hlutverki stjórnanda ljóðakvöldsins, en meðal áheyrenda voru auk Valdimars, skáldin Kristian Guttesen, Jón Magnús Arnarson, Björk Þorgrímsdóttur og Engill Bjartur Einisson.

Í það minnsta þrjár grímur runnu á Matta þegar hann hengslaðist með Önnu Júlíu á ljóðakvöldið.
Skjáskot/RÚV

Kristian Guttesen, skáld og sessunautur Valdimars í atriðinu, var ólíkt félaga sínum, ánægður með kveðskap Nilla ljóðskálds. „Þar sem mikið ljóðahúllumhæ átti sér stað í fjórða þætti þurfti að sjálfsögðu að kalla til einvala lið til að gæða svona viðburð lífi,“ segir hann um skáldasveiminn.

„Ég fílaði ljóðið og ef Valdimar segir það hafa verið slakt, þá getur það nú ekki verið alslæmt.“

„Helvítis holtaþokuvæl“

Valdimar, sem einnig er þekktur sem Ljóða-Valdi, Jafnvel Metsölu-Valdi, með vísan til þess að hann er þaulsetinn fastagestur á sölulistum ljóðabóka. Þá er hann einnig manna fróðastur um ljóðagerð á Íslandi í gegnum aldirnar og telur víst að kveðskapurinn sem fyrir eyru bar í þættinum hafi ekki komið út á prenti og muni líklega aldrei gera.

„Ég er til og biðst afsökunar á því að vera til…“ er meðal þess sem Nilli ljóðskáld hefur til málanna að leggja.
Skjáskot/RÚV

Handritshöfundarnir hljóti að bera ábyrgð á því sem hann kallar „dauðans helvítis holtaþokuvæl,“ með vísan í sjálfan Jónas Hallgrímsson þegar hann greinir ljóðið, hvar mælandinn sigar fjórummiðaldra konum í mislitum jogging-göllum á Egil Helgason með slíkum ósköpum að vart er hafandi eftir í borgaralegum miðli sem þessum.

„Jónas talaði um holtaþokuvæl þegar hann greindi og réðist gegn rímnakveðskapnum. Þar segir hann í einu ljóðinu: „ … leirburðarstagl og holtaþokuvæl, fyllir nú breiða byggð með aumlegt þvaður, bragðdaufa rímu þylur vesæll maður.“

Véllindastopp og gott kaffi

Þótt fágað sonnettu-skáldið hafi ekki beinlínis fengið fyrir hjartað þegar það heyrði kveðskapinn lesinn upp svelgdist því þó næstum á annars ágætu kaffinu án þess þó að detta úr karakter.

Ljóða-Valdi sækir í vopnabúr listaskáldsins góða þegar hann ganrýnir ljóðiðHugmynd að gjörningi.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Ég get ekki sagt annað en að það varð nokkurra sekúndna véllindastop en maður er svo vanur að halda andlitinu fyrir framan skepnurnar í sveitinni. Þær eru svo æðrulausar að maður myndbreytti þessu bara öllu í búfénað.

Hvað leikræn tilþrif þeirra félaga hefur hann þetta að segja: „Við sátum þarna hálfa dagstund eða svo, drukkum kaffi og létum eins og við værum menn. Kaffið var gott og ég afþakkaði nú greiðslu fyrir þetta framlag mitt. Þetta er jákvætt og ég vil fá íslenskt efni í sjónvarp þannig að ég segi bara takk fyrir mig og kaffið.“

„Þar sem mikið ljóðahúllumhæ átti sér stað í fjórða þætti þurfti að sjálfsögðu að kalla til einvala lið,“ segir Kristian.
Fréttablaðið/Pjetur

Valdimar segir ljóðaupplestur hans áður hafa verið notaðan sem bakgrunnshljóð í leiknu efni en annars hyggur hann ekki á frekari frama sem leikari. „Þetta er freistandi vettvangur en ég hafði nú ekki hugsað mér að fara út á þessa grein.

En það er gott fordæmi fyrir þessu þar sem að Þorsteinn frá Hamri muldarði eitthvað yfir borði í Jóni Oddi og Jóni Bjarna. Þannig að það er góð fyrirmynd þannig að þetta ætti ekki að særa skáldaímynd mína.“