Breskir net­verjar eyddu vikunni í að hæðast að her­toga­hjónunum Harry og Meg­han eftir að Time Magazine birti nýjar for­síðu­myndir af parinu í um­fjöllun sinni um hundrað á­hrifa­mestu ein­stak­linga veraldar. Myndirnar má skoða neðst í fréttinni.

Í um­fjöllun breska götu­blaðsins Mirror um málið segir að net­verjum þyki myndirnar heldur vand­ræða­legar og segir einn þeirra sam­kvæmt blaðinu að aug­ljóst sé að þær séu vel fótó­sjoppaðar. Parið var framan á nýjasta tíma­ritinu og vakti það mikla at­hygli.

Myndirnar voru teknar af ljós­myndaranum Pari Du­ko­vic heima hjá hjónunum, í glæsi­villu þeirra í Los Angeles. Þar má sjá þau í hinum ýmsu fötum og stellingum.

„Það er eins og þau séu tölvu­gerð,“ skrifar einn net­verjanna. Hann segir eftir­vinnsluna hafa verið lé­lega.

„Harry er ó­trú­lega vand­ræða­legur svona gapandi fyrir aftan konuna sína,“ segir einn. Annar segir það aug­ljóst hver fari með völdin í hjóna­bandinu af myndunum að dæma.

Líkir Harry við vax­mynd

Þá ræðir breska götu­blaðið við hönnuðinn Chris Hunn­ey­sett, sem segist halda að ljós­mynda­t­eymið hafi ætlað sér að fanga mjúku hliðar parsins. Hann bendir hins­vegar á að Harry líði best þegar hann fær að vera slakur og tjá sig eins og hann vill.

„Það sem er merki­legt við þessar myndir er að þetta er par sem er alltaf ró­legt fyrir framan mynda­vélar en þær láta þau líta út fyrir að vera stíf og ó­náttúru­leg,“ segir Chris.

Hann segir eftir­vinnsluna koma sér­stak­lega niður á prinsinum. „Það sést að þau reyndu að slípa hann í kringum augun í mynd­vinnslu­for­riti. Hann er að verða 40 ára gamall og hrukkur eru eðli­legur hlutur og sjást alltaf hjá honum, en hér hafa þær verið slípaðar í burtu þannig að hann lítur út eins og vax­mynd.“

Mynd/Time Magazine
Mynd/Time Magazine
Mynd/Time Magazine