Fyrir utan áfallið yfir því að Chadwick heitinn Boseman hlaut ekki Óskarsverðlaunin sem besti leikarinn kom helst á óvart hversu lífleg og vel yfir meðallagi skemmtileg hátíðin var í uppgjöri sínu við árið þar sem bíómyndir komust helst undan lamandi krumlu COVID-19 í vefstreymi heim í stofu.

Amanda Seyfried mætti á brautarpall frægðarinnar tilnefnd sem besta leikkonan í aukahlutverki fyrir dásamlega frammistöðu í Mank. Fréttablaðið/Getty

Hollywood þótti þarna senda skýr skilaboð um að á þeim bænum er fólk að ná vopnum sínum með því að halda alvöru verðlaunahátíð en ekki enn einn Zoom-fundinn þannig að ákveðin gleði og auðmýkt svifu yfir lestarmiðasölunni þar sem mannskapurinn skemmti sér á fyrstu Óskarsverðlaununum eftir að valdatíð Donalds Trump lauk og blússandi gangur í bólusetningum boðar enn bjartari tíma í myrkum bíósölum sem vonandi fyllast bráðum af grímulausu fólki á ný.

Angela Bassett var tignarleg þegar hún heilsaði upp á Viola Davis. Álitsgjafar Fréttablaðsins reyndust aðeins of bjartsýnir fyrir hönd Davis þegar þeir spáðu henni verðlaununum.
Það eru sko tvö u í nafninu. K-a-l-u-u-y-a. Besti aukaleikarinn, Daniel Kaluuya, lætur grafa nafn sitt á verðlaunagripinn sem hann hlaut fyrir frammistöðu sína í Judas and the Black Messiah.
Sjomli lætur sjá sig. Einn aðalgæinn í seinni tíma sögu Hollywood, sjálfur Harrison Ford, lét sig ekki vanta í gleðskapinn á Union Station.
Hjónin Helene Reingaard Neumann og Thomas Vinterberg. Leikstjórinn tileinkar Druk Ídu, dóttur sinni, sem lést 19 ára í bílslysi nokkrum dögum eftir að tökur hófust.