Ljóðskáldið og heimspekingurinn Kristian Guttesen fagnar útgáfu nýjustu ljóðabókar sinnar, Hrafnaklukkur, í Eymundsson Austurstræti klukkan 17 í dag.

„Ég ákvað mjög skyndilega að gefa út þessa bók núna í sumar þegar þeirri hugmynd laust niður í kollinn á mér að ef ég skyldi deyja fljótlega, þá væri þetta það síðasta sem ég þyrfti að segja,“ segir Kristian við Fréttablaðið.

Tónlistarmaðurinn Teitur Magnússon heiðar samkomuna með nærveru sinni og leikur nokkur lög af nýútkominni plötu sinni, Ornu. Þá býður ljóðskáldið gestum að skála í vegan-veigum og reiknar vitaskuld fastlega með því að lesa upp nokkur ljóð.

Leitaði til Metsölu-Valda

Þegar hugmyndin um dauðann og það sem honum lá mest á hjarta kviknaði efndi Guttesen til söfnunar á Karolina Fund. „Þá hafði ég bara skrifað einn af þremur köflum bókarinnar,“ segir skáldið.

„Þegar lá fyrir að verkefnið yrði að veruleika skrifaði ég hina tvo kaflana mjög hratt og án mikillar umhugsunar, í nokkurs konar flæði. Það hentaði efninu afar vel og ég er sáttur með útkomuna,“ segir Guttesen.

„Nú, í framhaldinu réði ég Valdimar Tómasson metsöluskáld í markaðsráð bókaútgáfunnar minnar og hann ætlar að hjálpa mér að koma bókinni til fólksins, en eins og alkunna er þá veit hann manna best hvernig bera eigi sig að í þeim efnum.“