Heimsfaraldurinn setti strik í reikninginn hjá Helgu Helenu Sturlaugsdóttur á fyrri hluta síðasta árs eins og hjá flestum Íslendingum. Helga er í kvennalandsliðinu í bridge sem átti að fara á Evrópumótið í Madeira í júní, en því var frestað vegna COVID. Í stað þess að eyða vorinu í stífar æfingar með landsliðinu átti Helga allt í einu frítíma aflögu og lét gamlan draum rætast, að skella sér á sjósundsnámskeið.

„Frænka mín, Heiða Mjöll Stefánsdóttir, hefur stundað sjósund í talsverðan tíma og oft haft orð á því hversu frábært það væri. Margir hafa líka sagt frá því að sjósund hjálpi við bólgum og verkjum og fyrir vikið hef ég oft hugsað með mér hvort ég ætti að prófa því ég er oft þreytt eða verkjuð. Þar sem ég átti óvæntan frítíma í vor ákvað ég að ef ég drifi mig ekki núna þá myndi ég aldrei fara.“

Kveið fyrir fyrsta skiptinu

Fyrrnefnd frænka hennar benti henni á sjósundsnámskeið Ernu Héðins og segir Helga það hafa verið hvílíka guðsgjöf að skrá sig á það.

„Ég viðurkenni fúslega að ég kveið gríðarlega fyrir að fara og var nánast sannfærð um að ég myndi deyja úr kulda við það eitt að dýfa tánni ofan í sjóinn. Ég náði að plata Siggu Stínu vinkonu mína með og skjálfandi á beinunum (af hræðslu, ekki kulda) fórum við svo í fyrsta tímann hjá Ernu.“

Námskeiðið var byggt þannig upp að þátttakendur hittust fjórum sinnum. Helga segir að Erna hafi haldið ótrúlega vel utan um hópinn og meðal annars leiðbeint þeim um réttan búnað, sundfatnað og brýnt fyrir þeim að borða áður en farið væri út í kaldan sjóinn.

„Við fengum reyndar „hörðu“ útgáfuna af námskeiðinu því aðstaðan í Nauthólsvík var lokuð vegna COVID. Fyrir vikið gátum við ekki farið í heita pottinn eða í sturtu eftir sjóinn.“

Það getur verið notalegt að liggja í þaranum og slaka á milli sundspretta.

Fyrstu skrefin árangursrík

Áður en hópurinn fór í sjóinn í fyrsta skiptið fór Erna yfir öndunina og hvernig best væri að fara rólega ofan í.

„Við vorum bara í sjónum í um eina til tvær mínútur í fyrsta skiptið ef ég man rétt og hvílíkur sigur sem það var. Síðan gaf Erna okkur heitt kakó og við spjölluðum saman. Næstu þrjú skiptin fórum við svo aðeins lengur og lærðum grunninn betur. Erna stofnaði Facebook-hópinn „Sjósundklúbbur Ernu“ svo við gætum átt samræðu- og samverugrundvöll eftir að námskeiðinu lauk. Sá hópur hittist tvisvar sinnum í viku í sjósundi eftir að COVID-takmarkanirnar féllu niður.“

Hún segir fyrstu skrefin hafa gengið ótrúlega vel.

„Eftir fyrsta skiptið var ég algjörlega fallin fyrir sjósundinu og því átti ég svo sannarlega ekki von á. Ég get fullyrt að sjósundið virkar á bólgur og verki því verkur sem ég hafði verið með í spjaldhrygg stanslaust frá því ég lenti í bílslysi 2018 hvarf og ég hef ekki fengið hann síðan. Þessu fylgir einhver vellíðan og gleði sem er erfitt að útskýra. Þegar ég er í sjónum finn ég hvergi til, mér líður vel í líkamanum og vel í sálinni. Hugurinn hreinsast og skapið verður betra. Þetta hljómar eins og ódýr auglýsing fyrir einhverja skyndilausn en svona er þetta bara. Ég hef í gegnum tíðina oft byrjað á einhverju af fullum krafti og svo fengið leið á því og byrjað á einhverju allt öðru. En sjósundið er eins og bridge, gjörsamlega frábært.“

Stemningin í sjósundinu er einstaklega notaleg og skemmtileg.

Öryggið skiptir máli

Hún segist svo sannarlega mæla með sjósundsnámskeiðum Ernu.

„Hún passar vel upp á alla og tekur tillit til hvers og eins. Það er líka svo mikilvægt að byrja ekki bara með því að henda sér út í heldur finna að maður sé öruggur og læra inn á sjálfan sig án þess að stofna sér í einhverja hættu.“

Fram undan er endalaus sæla þegar kemur að sjósundi ársins, segir Helga.

„Ég stefni á að fara að minnsta kosti þrisvar í viku í sjóinn og jafnvel reyna við Viðeyjarsundið ef ég er þannig stemmd.“