Henry Birgir Gunnarsson blaðamaður var staddur í Gautaborg í gær á tónleikum Guns N' Roses og segir Íslendinga sannarlega eiga von á góðu á þriðjudaginn. 

„Þeir voru stórkostlegir, í einu orði sagt. Gjörsamlega sturlaðir,“ segir Henry Birgir um tónleikana og bætir við: „Þeir buðu upp á þrjá og hálfan klukkutíma af stanslausri keyrslu sem er auðvitað ævintýralegt fyrir menn á þessum aldri sem eru að spila alvöru þungarokk,“ segir Henry Birgir í samtali við Fréttablaðið í kvöld. 

Hann segir að hann hafi farið örlítið skeptískur inn því hann hafði heyrt sögur af því að rödd Axl Rose væri farin og þeir væru þreyttir. Það reyndist þó alls ekki raunin. „Það er langt síðan mér var komið jafn ánægjulega á óvart. Ég átti alls ekki vona á þessu,“ segir Henry Birgir. 

„Röddin í honum var algerlega frábær, allavega á þessum tónleikum, og hélt allan tímann. Hann söng eins og engill og lét sig ekki muna um það að skokka í þrjá og hálfan tíma um sviðið þess á milli. Hann var í sturluðu formi og gjörsamlega geggjaður,“ segir Henry Birgir. 

Slash stal senunni

Hann segir þó gítarleikarann Slash algerlega hafa haldið tónleikunum uppi. „Það þarf enginn að hafa áhyggjur af því. Þetta er alveg „The Slash Show“ þessir tónleikar. Ævintýralegir solo-ar út í eitt. Hann stal algerlega senunni. Hann er töframaður með gítarinn og það er ótrúlegt að horfa á hann hlæja út í eitt og varla slá feilnótu á gítarinn.

„Ef að þeir tæmdu sig ekki á þessum tónleikum eiga Íslendingar sannarlega von á góðu. Þetta var langt fram úr mínum væntingum og heimsklassa frammistaða og einhverjir bestu tónleikar sem ég hef séð,“ segir Henry Birgir að lokum. 

Stærstu tónleikar sem haldnir hafa verið á Íslandi

Hljómsveitin er væntanleg til landsins á þriðjudaginn og mun spila fyrir tæplega 27 þúsund manns á risasviði á Laugardalsvellinum. Er um að ræða stærstu tónleika sem nokkurn tíma hafa verið haldnir á Íslandi. Sérstakt tónleikasvið hefur verið sett upp og verður grasið varið með sérstöku gólfi sem er búið að leggja yfir allan völlinn.