Metsöluhöfundurinn og leikarinn Gunnar Helgason þurfti fella niður sýningar á leikverki sínu Mömmu klikk í Gaflaraleikhúsinu í gær. Ástæðan eru miklir bakverkir sem við frekari skoðun reyndist vera þursabit.
„Elsku bestu áhorfendur sem fenguð EKKI að sjá Mömmu klikk í dag, ég biðst afsökunar á að hafa ekki getað sýnt. Það er alltaf ömurlegt að þurfa að fella niður sýningar og aldrei gert í léttúð heldur bara þegar öll sund eru lokuð,“ skrifar Gunni á Facebook-síðu sína.
Gunni segist hafa ætlað að halda sýningunni til streitu og meðal annars fengið sjúkraþjálfara til þess að aðstoða sig við að koma sér í gegnum sýningarnar tvær í gær. Eftir upphitun hafi hins vegar orðið ljóst að fresta þyrfti sýningunum. „[Þ]egar það var ljóst að ég stóð ekki í lappirnar var ekkert annað í stöðunni en að fresta.“
Með færslunni birtir Gunni mynd af sér eftir tveggja tíma æfingar hjá sjúkraþjálfaranum. „Þurfabit er ekkert grín!“ segir hann og bætir við að vonandi geti allir fundið miða á aðra sýningardaga.
„Ég veit alveg að það stóð mikið til hjá sumum. Ein amman var mætt með sjö barnabörn í geggjuðu stuði en þurfti að fara heim. Bara út af þursinum í mér,“ segir hann og biðst í kjölfarið velvirðingar á ónæðinu.