„Nú er kominn kokteill sem heitir Guðni Ágústsson. Þú verður að gera frétt um það,“ segir Guði Ágústsson og dregur upp símamynd af sjálfum sér, Brynjari Níelssyni og Andreu Sigurðardóttur viðskiptafræðingi með nafna hans í glösum.

„Mér þótti ástæða til að fá jafn skemmtilegan mann á Selfoss og bragða með mér á Guðna Ágústssyni í Tryggvaskála,“ segir Guðni aðspurður hvað Brynjar hafi verið að vilja upp á dekk.

„Allir grátum við Brynjar Níelsson, að hann skuli ekki vera á þingi. Þetta var til að „gleðin skín á vonarhýrri brá“ og brosað í gegnum tárin. Honum þótti drykkurinn góður og boðaði komu sína fljótt til mín aftur.“ Margrét Rún Guðjónsdóttir í Tryggvaskála segist hafa hringt í Guðna áður en staðurinn var opnaður og spurt hvað hann drykki. „Hann sagði maltviskí og ég sagði honum að ég ætlaði að búa til einhvern kokteil með því,“ segir hún um tilurð kokteilsins þar sem hindber og engiferbjór blandast viskíinu.

Margrét bætir aðspurð við að góður rómur hafi verið gerður að Guðna Ágústssyni. „Já, já, já, heldur betur. Fólk er að fíla hann.“