Það hefur verið nokkur gúmmískortur í heiminum á þessu ári og nú þegar farið er að líða á haustið virðist hann vera farinn að valda verðhækkunum á dekkjum hér á landi og hafa áhrif á dekkjaframboðið í Norður-Ameríku.

Bílaiðnaðurinn hefur lent í mörgum áföllum að undanförnu, sérstaklega í Bandaríkjunum. Verksmiðjum hefur verið lokað, Covid-smit hafa komið upp og það hefur verið heimsskortur á leiðurum, sem eru nauðsynlegt hráefni í tölvukubba fyrir bíla. Nú koma svo áhyggjur af gúmmískorti í ofanálag.

Ýmsar ástæður fyrir skortinum

Ástæðurnar eru nokkrar. Eftirspurn hefur verið mikil og framleiðendur hafa ekki getað gróðursett eins mikið af nýjum gúmmítrjám og venjulega vegna heimsfaraldursins. Þar sem það tekur trén sjö ár að þroskast og laufsjúkdómar og flóð hafa haft neikvæð áhrif á trén sem eru til staðar, hefur framboðið farið minnkandi.

Á sama tíma hefur eftirspurnin aukist mjög mikið í Kína, sem er langstærsti neytandi gúmmís í heiminum. Landið hefur jafnað sig á heimsfaraldrinum hraðar en önnur stór iðnvædd ríki og framleiðsla og neysla hefur aukist hratt.

Ekki nóg með það, heldur hefur líka verið skortur á flutningagámum, sem hefur gert vöruflutninga erfiðari. Allt hjálpast þetta að til að þrengja að gúmmímarkaðnum.

Fyrir vikið byrjuðu bandarískir framleiðendur, sem drógu úr pöntunum vegna faraldursins, að reyna að kaupa gúmmí af miklu kappi í desember síðastliðnum og gögn Bloomberg sýna að gúmmí náði hæsta verði sem það hefur náð í fjögur ár í febrúar síðastliðnum.

Skortur í Norður-Ameríku

Vegna þessa hafa margir haft áhyggjur af því að það verði ekki nægt framboð af vetrardekkjum þetta haustið. Óttinn við vöruskort er líka að neyða bílaframleiðendur til að endurskoða þá viðskiptahætti að framleiða allt á síðustu stundu og hafa lítinn lager, sem hefur hjálpað þeim að halda verði niðri og auka gróða. En þessi aðferðafræði hefur komið í bakið á þeim í faraldrinum.

Hráefnaskortur er orðinn svo mikið vandamál að bílaframleiðendur hafa tilkynnt að framleiðsla muni minnka um allt að helming á næsta ári. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Í vor sagði dekkjaframleiðandinn Goodyear í viðtali við CNBC-fréttastöðina að gúmmískorturinn myndi ekki hafa nein áhrif á framboð sitt, en svo kom yfirlýsing frá fyrirtækinu fyrr í þessum mánuði þar sem kom fram að Norður-Ameríku myndi skorta um 5 milljónir dekkja á þessu ári.

Sums staðar í Bandaríkjunum og Kanada eru dekkjafyrirtæki í vandræðum með að mæta eftirspurn og sumir dekkjasölumenn þar mæla með því að fólk kaupi dekk snemma til að tryggja sér þau og setja þau svo undir bílinn síðar. Aðrir segja að það sé óþarfi að hafa áhyggjur nema fólk sé með mjög sértækar og harðar kröfur.

Ekki skortur hér en verð hærra

Samkvæmt Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, er mjög lítil hætta á dekkjaskorti hér á landi í haust, en mögulega gerir hann vart við sig á næsta ári. Verð hefur þó hækkað.

„Þetta hefur verið í umræðunni en fólk hefur ekki áhyggjur,“ segir Björn Kristjánsson, tækniráðgjafi hjá FÍB. „Birgðastaðan í landinu er ágæt eftir seinasta vetur, þar sem hann var frekar mildur, en það sem hrjáir fólk eru tafir á innflutningi, bæði vegna þess að framleiðsla hefur farið hægt af stað og vegna skorts á flutningagámum og öðrum flutningaleiðum. Þetta hefur leitt til einhverrar hækkunar á verði dekkja milli ára og við ætlum að gera samanburð á verðinu í ár og á því síðasta.

Mér sýnist ekki stefna í dekkjaskort fyrir þennan vetur, en ef ástandið heldur svona áfram gæti hann gert var við sig næsta vor eða haust,“ segir Björn.

Kubbaskorturinn verri

Tölvukubbaskorturinn sem hefur verið viðloðandi síðastliðið ár hefur aftur á móti haft mikil áhrif á bílaiðnaðinn.

„Hráefnaskorturinn er svo mikill að bílaframleiðendur hafa tilkynnt að framleiðsla muni minnka um allt að helming á næsta ári vegna skorts á íhlutum,“ segir Björn. „Þetta er sérkennileg staða sem er að koma upp, nú vantar hluti sem manni dytti ekki í hug og það stöðvar færibandið hjá mörgum.“

Þannig tilkynnti Ford að fyrirtækið væri að byggja pallbíla án nauðsynlegra íhluta og ætlaði að bæta þeim við síðar og General Motors hætti framleiðslu á tveimur bílategundum seint í mars og sleppti tímabundið eldsneytissparandi tækni í öðrum bílum. Verðið á pallbílum Toyota hefur líka hækkað.

Ástandið er orðið það slæmt að tölvukubbaframleiðandinn Intel hefur ákveðið að hefja framleiðslu á tölvukubbum fyrir bíla til að auka framboðið. ■