Guðmundur Benediktsson mun stýra þáttunum um Pepsi Max-deild í karlaflokki á Stöð 2 Sport í sumar en hann tekur við keflinu af Herði Magnússyni.

Þetta var tilkynnt í þættinum Sportið í dag á Stöð 2 Sport í dag.

Hörður stýrði um árabil Pepsi-mörkunum en honum var sagt upp störfum síðasta haust. Það var því ljóst að það vantaði nýjan skipstjóra í markaþáttinn karlamegin.

Guðmundur hefur um árabil komið að þáttagerð hjá Stöð 2 Sport með Messu-þáttunum í enska boltanum og Meistaradeild Evrópu.

Hann mun hafa Hjörvar Hafliðason, Tómas Inga Tómason, Sigurvin Ólafsson, Davíð Þór Viðarsson, Reyni Leósson og Mána Pétursson með sér í þáttunum.

Guðmundur lék á sínum tíma 237 leiki í efstu deild, flesta með KR en einnig með Val og uppeldisfélagi sínu, Þór Akureyri í þáverandi Trópí-deildinni.

Undanfarna mánuði hefur Gummi sýnt á sér nýjar hliðar spjallþætttinum Föstudagskvöld ásamt því að vera í aðalshlutverki í þáttunum Ísskápastríð á Stöð 2.