„Ég verð að hafa mig til og gera mig fallegri vegna þess að hin fátæku eru alltaf í leit að stjörnu í myrkri nætur,“ sagði Imelda eitt sinn.

Óhætt er að fullyrða að fáar konur í mannkynssögunni hafi verið jafn áberandi og umdeildar og hún. Imelda fæddist árið 1929 og giftist eiginmanni sínum Ferdinand Marcos árið 1954, ekki nema 11 dögum eftir þeirra fyrstu kynni, og var forsetafrú í 21 ár.

Svívirðilegt skósafn

Þrátt fyrir að vera afar umdeild þótti Imelda glæsileg á sínum yngri árum og þá sérstaklega á sjöunda áratugnum og var hún meðal annars kölluð „hin filippseyska Jackie Kennedy“. Hún notaði svartan augnblýant, túperaði hárið, setti það upp og klæddist vönduðustu fötum sem völ var á.

Imelda ásamt Lyndon B. Johnson.

Meðal þess sem hún hafði fyrir stafni var að halda íburðarmiklar veislur fyrir frægt og ríkt fólk víðs vegar að úr heiminum. Hún naut mikilla vinsælda meðal stjórnmálaleiðtoga á borð við Fidel Castro, Muhammed Gaddafi og Bandaríkjaforsetana Lyndon B. Johnson og Ronald Reagan meðan á valdatíð þeirra stóð.

Sjálfur Castro sagði að það væru bara tvær konur sem hann myndi setjast í bílstjórasætið fyrir, móðir hans og Imelda Marcos.

Imelda er ein eftirminnilegasta kona 20. aldarinnar.

Það sem var þó sennilega hvað mest talað um í fari Imeldu var stjórnlaust skóblæti en hún er sögð hafa átt yfir 3.000 skópör. Imelda var ekki sátt við þessar fullyrðingar og sá sig síðar knúna til þess að leiðrétta mýtuna. „Ég átti ekki 3.000 skópör, þau voru 1.060,“ sagði hún, sér til varnar.

Þá eyddi hún líka umtalsverðum fjármunun í listaverk og skartgripi.

Imelda Marcos eyddi gríðarlegum fjármunum í veraldlega hluti. MYND/GETTY

Ostahneisan og Bítlarnir

Eftirminnilegasta verslunarferðin var þó vafalaust þegar hún lét flugstjóra snúa við á miðri leið og fljúga aftur til Rómar vegna þess að hún hafði gleymt að kaupa tiltekinn ost. Var atvikið nefnt „Ostahneisan“ eða „The Cheese Scandal“.

Eyðsluáráttu Imeldu virtust engin takmörk sett en ein sagan segir að hún hafi látið flytja burtu stóran hluta innfæddra íbúa á filippseyskri eyju svo að hún gæti flutt inn fjölda afrískra dýra, þar á meðal eitt stykki gíraffa. Hún var og er raunar svo alræmd fyrir eyðslusemi að nýtt lýsingarorð, orðið „Imeldific“, var innblásið af henni en það stendur fyrir eyðslusemi, agaleysi og óhóf.

Bítlarnir standa í ströngu í heimsókn sinni til Filippseyja. MYND/GETTY

Þegar Bítlarnir spiluðu í Manila árið 1966 sendi frúin boð eftir þeim í veislu þar sem hinir gestirnir voru valdamesta fólk Filippseyja á þeim tíma. Þegar Bítlarnir létu ekki sjá sig, einfaldlega vegna þess að þeir voru þreyttir, fóru hlutirnir fljótt úr böndunum. Starfsfólk hótelsins hætti að veita þeim þjónustu og á flugvellinum hættu rúllustigarnir að virka þegar Bítlarnir og fylgdarlið þeirra nálguðust svo þeir þurftu að bera þunga magnara og hljóðfæratöskur upp stigana.

Í ögnþveitinu var sparkað í andlit umboðsmanns Bítlanna, Brian Epstein, og sparkað svo fast í rótarann Mal Evans að hann rifbeinsbrotnaði. Þá öskraði einhver á ensku að Bítlarnir væru ekkert sérstakir og ættu að fá sömu meðferð og aðrir farþegar. Lennon svaraði þá um hæl: Venjulegir farþegar? Það er ekki sparkað í þá og þeir lamdir, er það?

Bítlarnir gáfu út tímamótaverkið Revolver nokkrum vikum eftir martröðina í Filippseyjum og fóru í kjölfarið alfarið inn í hljóðverið. Þessi atburðarás gaf af sér margar af þeirra bestu plötum sem komu til með að gjörbreyta heiminum.

Ekki löngu eftir þennan atburð, í ágúst 1966, hættu Bítlarnir að fara á tónleikaferðalög og fóru þess í stað að taka upp í hljóðveri. Úr komu einhverjar áhrifamestu og framsæknustu poppplötur tónlistarsögunnar, á borð við Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band og Abbey Road.

Imelda lagði alltaf áherslu á að vera vel til höfð þrátt fyrir að margir þegna hennar hafi búið við sára fátækt en fátækt jókst verulega í valdatíð hennar og eiginmanns hennar, Ferdinand Marcos.

Nokkrum árum síðar, árið 1972, var Imelda svo stungin í hendur og handleggi í misheppnaðri morðtilraun. Hún sagði síðar að það fyrsta sem hún hefði hugsað meðan á árásinni stóð var hversu ljótt morðvopnið væri og að árásarmaðurinn hefði betur skreytt vopnið með gulum borða.

Það er nefnilega það.

Hvítklædda Stálfiðrildið.