Ragnar Bragason státar sem leikstjóri af úrvalskvikmyndum á borð við Börn, Foreldra og Bjarnfreðarson að ógleymdum Vaktar-seríunum vinsælu sem einmitt gátu af sér síðastnefndu bíómyndina.

Hann reyndi fyrir sér með góðum árangri á leiksviði með Gullregni 2012 en verkið hlaut átta tilnefningar til Grímuverðlaunanna sem Ragnar hlaut síðan sem besti leikstjóri þess árs.

Gullregn fjallar um kerfisfræðinginn Indíönu sem býr í Fellahverfinu og lifir á bótum þótt hún sé alheilbrigð. Þar ræktar hún gullregn og hatast við útlendinga þangað til sonur hennar birtist með pólska kærustu og stoðir heimsmyndar hennar bresta.

Kunnugleg andlit úr menningarlífinu voru áberandi á hátíðarfrumsýningu myndarinnar í Háskólabíói en almennar sýningar hefjast á föstudaginn og í Bíó Paradís kveður við þau nýmæli að myndin verður sýnd á víxl með pólskum og enskum texta en íslensk bíómynd í fullri lengd hefur ekki áður verið frumsýnd með pólskum texta á landi hér.

Leikaraparið Sveinn Geirsson og Tinna Hrafnsdóttir brostu sínu blíðasta.
Hagfræðingurinn Rósa Björk Sveinsdóttir og leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson létu sig ekki vanta á hátíðarfrumsýninguna á Gullregni.
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, og Hrund Þrándardóttir sálfræðingur könnuðu stöðuna hjá kerfisfræðingnum í Fellunum.
Hjónin Ingibjörg Ösp og Magnús Geir voru að sjálfsögðu mætt en það var einmitt í leikhússtjóratíð Magnúsar Geirs sem Ragnar frumsýndi Gullregnið.
Fréttasysturnar Lára og Alma Ómarsdætur í stuðinu.
Lena Viderø og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir sem störfuðu í eina tíð saman á tímaritinu Nýju Lífi brostu breitt.