Eins og segir í 2 gr. laga félagsins þá er „Tilgangur félagsins ... að efla samheldni meðal gullsmiða á Íslandi, að koma í veg fyrir að réttur þeirra sé fyrir borð borinn og að stuðla að öllu því, er til framfara horfir í iðninni.“

„Þegar félagið var stofnað var til dæmis starfandi verðlagsnefnd sem ákvað meðal annars hvað væri eðlilegt verð á trúlofunarhringum, en á þeim tíma kostaði það almennan borgara jafnvel ein mánaðarlaun að fjárfesta í trúlofunarhring. Gullsmiðir voru oft og tíðum umsvifamiklir í þá daga þar sem mörgu þurfti að sinna tengdu skarti, áletrun og fleira. Þá var nánast allt sem kom frá gullsmið handsmíðað. Þrátt fyrir breytt umhverfi er ótrúlega margt áhugavert að gerast á gullsmíðamarkaðnum í dag. Þá stendur félagið einnig reglulega fyrir samsýningum gullsmiða til þess að kynna framleiðslu sína,“ segir Arna Arnardóttir, gullsmiður Meba og formaður Félags íslenskra gullsmiða.

Staða gullsmíða styrkist með hverju árinu

Að sögn Örnu var staða gullsmíða á Íslandi nokkuð sterk fyrir um 30–40 árum, en þá var úrval af gjafavöru minna. „Svo í kjölfar hrunsins 2008 má segja að staða íslenskra gullsmiða hafi styrkst aftur þegar Íslendingar fóru að huga meira að því að kaupa íslenska hönnun og framleiðslu. Með tilkomu aukins straums erlendra ferðamanna jókst sala á ákveðnum mörkuðum einnig gríðarlega og hefur þessi grein verið að koma virkilega sterk inn á markaðinn í dag. Það er til dæmis miklu meira um að íslenskir kúnnar velji að versla við íslenska gullsmiði. FÍG hefur einnig verið í samvinnu við Krabbameinsfélag Íslands og staðið fyrir samkeppni meðal sinna félagsmanna um hönnun á bleiku slaufunni.“

Þá er það alltaf að aukast hjá yngri kynslóðinni að versla við íslenska gullsmiði. „Þessar nýju kynslóðir eru sífellt að verða meðvitaðri um bæði umhverfissjónarmið og aðra kosti þess að versla við innlenda aðila, þar sem hægt er að rekja betur framleiðsluhætti og tryggja að ítrasta siðferðis sé gætt í hvívetna.“

Arna segir það líka ánægjulegt að sjá að þó nokkrar skartgripaverslanir eru að selja eftir nokkra íslenska gullsmiði á einum stað. „Má þar t.d. nefna Meba í Kringlunni og Smáralind, en stærsti hluti af skartgripasölunni þar er eftir íslenska gullsmiði. Flóra gullsmiða og skartgripaverslana hér á landi er virkilega fjölbreytt og er það þó enn þá svo að langflestir gullsmiðir reka sína eigin verslun og selja þar sína hönnun og smíði ásamt því að sinna þjónustu við sína vöru,“ segir Arna, sem starfar einnig sem gullsmiður í Mebu.

Arna Arnardóttir starfar sem gullsmiður hjá Mebu og er einnig formaður Félags íslenskra gullsmiða. Mynd/Aðsend

Störf félagsins

Gullsmíði er virkilega fjölbreytt fag og nær yfir vítt svið. „Við sinnum viðgerðarþjónustu, hreinsum skart og ráðleggjum viðskiptavinum með val á efni og eðalsteinum. Félag íslenskra gullsmiða er fyrst og fremst fagfélag og eru helstu markmið félagsins að efla samheldni og standa vörð um réttindi íslenskra gullsmiða, viðhalda menntun þeirra og stuðla að framförum og nýsköpun í greininni. Félagið er einnig aðili að Samtökum iðnaðarins og Hönnunarmiðstöð Íslands. „Við pössum vel upp á greinina og þá sem starfa innan hennar og stuðlum að samstöðu íslenskra gullsmiða í vönduðum og faglegum vinnubrögðum. Einnig erum við ráðleggjandi þegar kemur að gullsmíðanámi á Íslandi, en við höfum tekið þátt í námskrárgerð og fleira.“

Í dag eru starfandi einhvers staðar á milli 40–50 gullsmiðir á Íslandi. „Langflestir eru félagsmenn í Félagi íslenskra gullsmiða, en í félaginu eru rúmlega 80 félagsmenn. Þó starfa nokkrir utan félagsins. Staða íslenskra gullsmiða er sterkust á höfuðborgarsvæðinu þar sem flestir starfa. En þó er að finna nokkra víða um land og þar má til dæmis nefna á Akureyri, Ísafirði, í Reykjanesbæ og á Akranesi.“

Verndað starfsheiti

Gullsmiður er verndað starfsheiti sem eingöngu þeir sem hafa lokið námi og viðeigandi starfsnámi í gullsmíði geta starfað undir. Arna vill vekja athygli á því að það eru ótvíræðir kostir sem fylgja því að versla við þá sem starfa undir þessum hatti frekar en marga aðra, sem sumir hverjir kalla sig gullsmiði en eru það raunverulega ekki. „Ef þú kaupir til dæmis hring hjá faglærðum gullsmiði, hvort sem það er í verslun gullsmiðsins eða safnverslum eins og Mebu, þá er þjónustustigið hærra en gengur og gerist hjá öðrum. Aðgengið að hönnuðinum og gullsmiðnum er stutt, sem gerir það að verkum að ef það þarf að gera breytingar á skartinu, hvort heldur er að stækka eða minnka, lagfæra keðju eða annað, þá verður það ferli allt einfaldara. Þetta þjónustustig er meðal annars tryggt af félaginu. Það gæti verið ódýrara að kaupa skart af ófaglærðum skartgripahönnuði, en svo vandast málið ef það þarf að gera breytingar eða lagfæringar. Aðilanum ber engin skylda til þess að veita þá þjónustu og þá þarf að leita til gullsmiða.“

Ljósmyndin er tekin á 95 ára afmælissýningu félagsins sem haldin var í Hörpu í október 2019. Hér má sjá víravirki notað í skart. Mynd/aðsend

Fjölbreytt flóra

Íslensk gullsmíði er gífurlega margvísleg í dag, sem sést á þeim gífurlega fjölbreytileika í vinnu og vörum gullsmiða. „Flóran er virkilega fjölbreytt og það er spennandi að fylgjast með því sem er að gerast í gullsmíðinni á Íslandi. Við eigum mikið af áhugaverðum hönnuðum og gullsmiðum á öllum aldri sem eru að gera ótrúlega spennandi hluti. Auðvitað eru alltaf tískubylgjur í gangi sem stýra því sem gullsmiðirnir eru að gera og því sem markaðurinn biður um hverju sinni. Þá má til dæmis nefna að fyrir nokkrum árum var mikið um stærra skart, en í dag eru línurnar að verða fínlegri.

Víravirkið er gott dæmi um þetta, en á síðustu sjö árum eða svo hefur áhugi gullsmiða á víravirki aukist til muna sem og á sögu skartgripagerðar á Íslandi. Þetta sést alltaf meira og meira í hönnun nýútskrifaðra gullsmiða. Víravirki er fyrirbæri sem sést víða um heim og þekkist meðal annars í Indlandi og öðrum Asíulöndum í skartgripagerð. Á Íslandi hefur víravirkið hins vegar að mestu einskorðast við þjóðbúningagerð en það er alltaf að detta inn eitt og eitt skart með þessu mynstri. Gyllta útlitið er einnig í mikilli sókn en þá kemur gullhúðunin sterk inn.“

Nýjar og hentugar leiðir til að koma sér á framfæri

Íslenskir gullsmiðir, og þá sérstaklega þessir yngri, eru líka duglegir að nýta sér nýjustu tækni á samfélagsmiðlum og í netverslun. „Í gamla daga, ef þú ætlaðir að koma fram með eigin hönnun sem gullsmiður, þá varðstu að opna verslun og reka hana. En með tilkomu netverslana hefur rekstrarformið breyst og það er orðið auðveldara fyrir nýja gullsmiði að komast inn á markaðinn. Enda hefur töluverð nýliðun átt sér stað í gullsmíðabransanum. Einnig er orðið auðveldara að auglýsa sig með tilkomu auglýsinga á samfélagsmiðlum og á netinu. Í sumum tilfellum hafa íslenskir gullsmiðir jafnvel vakið athygli erlendis vegna þessa,“ segir Arna.