Samtök erlendra skemmtanabransablaðamanna í Hollywood afhentu þeim sem talin eru hafa skarað fram úr í kvikmyndum og sjónvarpi verðlaun sín sem kennd eru við Gullhnöttinn, Golden Globe, á sunnudagskvöld við fordæmalausar aðstæður plágunnar.

Hefðbundnar tískusýningar fræga fólksins á rauða dreglinum færðust að mestu á Zoom og verðlaunin voru í fyrsta skipti ekki aðeins afhent í Los Angeles á Beverly Hilton-hótelinu, heldur einnig frá Rainbow Room í New York. Tæknilegir örðugleikar, skipulagsleysi og fleira vesen varpaði skugga á gleðina en það var þó fleira en COVID-19 sem setti gleðina í annarlegt samhengi þar sem samtök erlendu pressunnar í Hollywood hafa lengi verið sökuð um mútuþægni og spillingu þannig að í raun myndi enginn blaðamaður með snefil af sjálfsvirðingu skrá sig í klúbbinn sem auk þess, og til þess að bíta höfuðið af skömminni, hefur áratugum saman aðeins verið skipaður hvítu fólki.

Hollywood-stjörnurnar létu þó ekki sitt eftir liggja, afhentu og tóku á móti Gullhnöttum og reyndu margar hverjar að gera sem best úr þessu öllu saman.

Leikkonurnar og grínistarnir Tina Fey og Amy Poehler virtu tveggja metra regluna með slíkum stæl að þúsundir kílómetra skildu þær að þar sem Fey kynntir hátíðina frá New York á meðan Poehler var á hinum hefðbundna vettvangi Golden Globe í Los Angeles.
Skák og mát! Anya Taylor-Joy tók rafrænt við verðlaunum fyrir besta leik í stakri sjónvarpsseríu fyrir The Queen’s Gambit.
Gullhnattargengið er skipað tæplega 90 blaðamönnum, engum svörtum, frá öllum heimshornum eins og þessi mótmælandi minnti áþreifanlega á.
Rosamund Pike hlaut Gullhnött fyrir andstyggilega góðan leik í I Care a Lot. Kjóllinn hennar hefði notið sín vel á rauða dreglinum en þessi mynd sem hún sendi á sýndardregil fjölmiðla varð að duga.
Hollywood-goðsögnin, leikkonan, aktívistinn og líkamsræktarfrömuðurinn Jane Fonda fékk heiðursverðlaunin kennd við Cecil B. deMille fyrir ævistarf sitt í kvikmyndum. Fonda, sem er 83 ára, var sjálfri sér lík og hélt innblásna þrumuræðu.
Leikkonan Angela Bassett sendi rauðadregils mynd af sér í fjólubláum fjaðurham frá Dolce & Gabbana með Graziela-skarti. Myndin gerði allt vitlaust á Twitter þar sem fólk réð sér ekki fyrir hrifningu. Fréttablaðið/Getty
Heiðurshjónin Catherine Zeta-Jones og Michael Douglas mættu í eigin persónu á sviðið í New York og kynntu tilnefningar fyrir bestu dramakvikmyndina.