Jóhannes Þ. Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, og félagi hans Markús Þórhallsson fréttamaður eru svo eldheitir Eurovision-aðdáendur að saman hafa þeir löngum kallað sig Eurovision-guðspjallamennina Markús og Jóhannes.

Og nú er svo komið að Jóhannes hefur fengið yfir sig nóg af þeirri goðgá RÚV að rjúfa beinu útsendingarnar með auglýsingum í hálfleik og spilla þannig upplifuninni með því að svipta áhorfendur tilkomumiklum skemmtiatriðum.

„Þetta er náttúrulega óþolandi, um það eru held ég allir Eurovision-aðdáendur á landinu sammála enda er það þannig að þessar auglýsingar ná ekki til þessa hóps, enda stillir hann bara inn á aðrar stöðvar sem sýna þetta til að missa ekki af þessu,“ segir Jóhannes sem fékk góðar undirtektir frá um það bil hundrað öðrum aðdáendum þegar hann gaf RÚV rauða spjaldið í Facebook-hópi þeirra.

Upplifunin eyðilögð

„Þú verður að spyrja Ríkisútvarpið að því! Það þarf að selja auglýsingar greinilega,“ segir Jóhannes þegar hann er spurður að því hvers vegna RÚV velji þennan kost.

„Einhver minntist á það að skemmtiatriðin væru nú spiluð beint eftir keppni. En ég segi þá, bíddu er ekki upplagt að spila þessar auglýsingar allar beint eftir keppnina úr því það eru allir að horfa á sjónvarpið þá líka?!“

Jóhannes bendir jafnframt á að Eurovision sé augljóslega ein samfelld upplifun og að skemmtiatriðin séu algert konfekt fyrir einlæga aðdáendur keppninnar. „Það er verið að leggja gríðarlega mikið í þetta og það er algjörlega óþolandi að Ríkisútvarpið skuli sýna aðdáendum þessarar keppni þá vanvirðingu, svo ég segi það bara hreint út, að halda að við viljum horfa á skjáauglýsingar frá Bakarameistaranum frekar en þetta.“

Jóhannes bendir á að þannig sé út í hött að spila sex, sjö mínútna auglýsingapakka yfir þessi atriði.

„Þau eru orðin töluvert stór hluti af sýningunni og mjög mikið í þau lagt eins og sást á atriði, Fai Rumore, sem var sennilega flottasta atriðið á þriðjudagskvöld,“ útskýrir Jóhannes.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri hefur ekki svarað fyrirspurn Fréttablaðsins um ástæður þess að stofnunin kjósi að senda út auglýsingar þessar mínútur sem greinilega eru Jóhannesi og öðru Eurovision-fólki svo dýrmætar.

Alger rökleysa

Jóhannes ítrekar að honum finnist slöpp rök að benda á að atriðið sé sýnt beint á eftir keppninni. „Þetta er svolítið eins og ef menn myndu ákveða að spila auglýsingar á 80. mínútu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Það dettur það engum í hug, enda yrði allt sturlað.

Þetta er náttúrulega príma auglýsingatími, margir að horfa og kannski korter eftir. Þá munar nú engu að henda inn sjö mínútum af auglýsingum og sýna svo bara mörkin sem koma á meðan þegar leikurinn er búinn. Þetta er nákvæmlega sami hluturinn,“ segir Jóhannes og rekur fleiri dæmi.

„Það dettur engum í hug að spila auglýsingar í tíu mínútur á meðan eitthvað er að gerast á sviðinu á Óskarsverðlaunahátíðinni. Þetta eru sömu sjónarmið. Menn spila auglýsingar fyrir og eftir Áramóta­skaupið, ef það væri í beinni útsendingu myndi engum detta í hug að spila auglýsingar í átta mínútur á meðan það væri útsending í gangi á Áramótaskaupinu. Þetta er náttúrulega bara djók.“

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.
Mynd/Reykjavíkurborg