„Þetta er geggjað. Ég er mjög spennt fyrir þessu og mér líður eins og ég sé komin á þann stað sem ég vil vera á. Mig er búið að langa svo að geta gert þetta,“ segir söng­konan Guð­rún Árný, sem ætlar að leiða fjölda­söng, eins og henni einni er lagið, af stóra sviðinu á Þjóð­há­tíð í Eyjum.

„Þetta er ekki Brekku­söngurinn,“ heldur Guð­rún Árný á­fram og bætir við að hún hafi fengið sér­stakt pláss í há­tíðar­dag­skránni. „Ég verð á föstu­dags­kvöldinu á besta tíma, frá hálf ellefu til ellefu, þegar allir eru í stuði. Ég er svo spennt að ég er bara að bilast. Ég er ekki búin að mega segja frá þessu svo lengi að loksins get ég farið að tjá mig um þetta.“

Í fyrra skapaðist mikil og al­menn stemning fyrir því að Guð­rún Árný yrði fengin til þess að leiða hinn marg­rómaða Brekku­söng, en hún var með að­eins aðrar hug­myndir og ætlar að mæta með eitt­hvað alveg nýtt í Dalinn um verslunar­manna­helgina.

Best í partí­söngnum

„Það var náttúr­lega alveg dá­sam­legt,“ segir Guð­rún Árný, um allar þær á­skoranir sem þjóð­há­tíðar­nefnd fékk í fyrra. „En eftir að hafa verið þarna síðasta sumar, náttúr­lega fyrir tómri Brekku, og sjá hann Magnús Kjartans standa sig ó­að­finnan­lega, þá fór ég að hugsa og benti þjóð­há­tíðar­nefndinni á að ég væri bara lang­best ef ég gæti bara mætt með partí­sam­söng.

Ég sagði bara við þau í fyrra að þetta væri það sem mig langar að gera og ég veit að það virkar og þau bara treystu á mig og voru sam­mála,“ segir Guð­rún Árný og færir sterk rök fyrir þessari pælingu sinni.

„Vegna þess að í Brekku­söngnum er maður náttúr­lega svo­lítið með ís­lenskt efni og mig langaði að vera bara með öskur­söng. Bara allt mögu­legt. Ég er búin að vera að gera þetta í allan vetur í partíum.“

Guðrún Árný segist því vera komin með mjög góða til­finningu fyrir því hvað er vin­sælast í sam­fé­laginu og lík­legast til að slá í gegn í jafn stóru partíi og Þjóð­há­tíð vissu­lega er.

„Þannig að ég ætla bara að láta vaða og vera búin að raða þessu svo rosa­lega þétt saman að fólk verður bara upp­tekið að syngja þarna með mér í góðar 30-40 mínútur. Það verður bara meiri háttar.“

Í takti við sam­tímann

Guð­rún Árný segir að lík­lega sé ó­hætt að tala um að hún sé að fara að stjórna stærsta fjölda­söng­skór landsins. „Jú, þetta er bara þannig og þetta verður bara allt milli himins og jarðar. Bara saman­safn af þeim lögum sem ég er beðin mest um í partíunum,“ segir söng­konan og telur upp lög á borð við Shall­ow, Ég lifi í voninni og 80´s klassíkina To­ta­l Eclip­se of the Heart.

„Þetta eru bara lög sem allir þekkja og svo eru líka lög sem allir aldurs­hópar kunna. Eins og Bohemian R­haps­o­dy, Gor­djöss, með Palla, og auð­vitað Mamma Mia. Þannig að þetta er bara það sem ég er beðin um alls staðar sem verður tekið þarna.“

Guð­rún Árný leggur á­herslu á að lögin sem hún syngur séu þannig val fólksins og hún láti fjöldann ráða frekar en eigin hug­myndir. „Það er svo gefandi að mæta til þess að gleðja,“ segir söng­konan, sem er í góðum takti við sam­tímann og um­hverfið eftir að hafa verið fastur, viku­legur gestur hjá Ívari Guð­munds­syni á Bylgjunni þar sem hún hefur sungið óska­lög hlust­enda við­stöðu­laust. Þá reynslu og söng í partíum í allan vetur ætlar hún síðan að nýta til hins ítrasta í Herjólfs­dal þegar blásið verður til lang­þráðrar mannaðrar Þjóð­há­tíðar sem byrjað er að selja miða á á dalurinn.is.