„Veislukona eins og ég hef átt pínu bágt með að halda engar veislur eða boð í gott ár núna. Ég elska að bjóða fólki heim en eins og gefur að skilja hafa engin veisluhöld átt sér stað í dágóðan tíma,“ segir Berglind sem var harðákveðin í því að afmælisveisla skyldi haldin núna, innan sóttvarnamarka að sjálfsögðu.

Dásamlega fallegir köku­pinnar með skrauti féllu svo sannarlega í kramið hjá veislugestum, enda upplifun fyrir munn og maga og sannkallað augnakonfekt.

Bleikt, hvítt, svart og gyllt þema með kisuívafi

Þemað í ár var með kisuívafi, bleikt, hvítt, svart og gyllt.

„Það spratt út frá því að ég sá undurfallega kisudiska í Allt í köku. Svo ég gekk um alla búð með kisudótið og valdi fleiri hluti í sömu litum til að para með. Katrín eigandi Allt í köku kom síðan með hugmynd að borðaskreytingu og almáttugur hvað hún kom vel út. Elsku Hemmi minn tæmdi í sér lungun kvöldinu áður þegar hann blés í skrilljón litlar blöðrur sem ég raðaði upp á blöðruborða og úr varð þessi gullfallega blöðrulengja sem lá yfir allt borðið. Venjulega byrjar þema bara á því að ég sé eitthvað fallegt, eins og kisudiskana í þetta skiptið, og svo spila ég út frá því, skoða hugmyndir á netinu, fer að fabúlera með kökur og veitingar og allt þar á milli.“

Afmælisgestirnir sem og afmælisbarnið fengu æðislega andlitsmálun sem hitti í mark.

Andlitsmálning fyrir börnin

„Ein mesta snilld sem ég veit er að fá andlitsmálun fyrir börnin og fékk ég yndislegu Ingunni hjá Andlitsmálun Ingunnar til að koma eins og oft áður. Við vissum ekki af krökkunum heillengi á meðan þau biðu í röð eftir að kæmi að sér og þau fylgdust með listamanninum að störfum,“ segir Berglind.

Kiskudiskar, sérvéttur, rör og allt í stíl.
Litlir kleinuhringir frá Dons Donuts er í uppáhaldi hjá Berglindi og fjölskyldu.

Veitingar fyrir alla aldurshópa

Berglindi fannst ekki nóg að hafa fallegt skraut og kökur.

„Það þarf að passa að eitthvað sé fyrir alla, börn og fullorðna, og að enginn fari svangur heim. Það væri líklega mín versta martröð. Þar sem mikill tími fer í skreytingar finnst mér dásamlegt að úthýsa ákveðnum þáttum hjá ættingjum, vinum eða veitingaþjónustum og að þessu sinni pantaði ég hjá Lemon til að allir fengju eitthvað matarkyns áður en smakkað væri á sætindunum. Svo sóttum við Dons Donuts en ég elska þá ljúffengu, litlu kleinuhringi. Afmælið var eftir vinnu á mánudegi og þetta hitti þvílíkt í mark.“

Meðal veitinga í afmælinu voru samlokur og djús frá Lemon.

Boðið var upp á eftirfarandi veitingar í kisuaafmælinu:

Samlokur og djús frá Lemon

Pavlovu

Kransakökubita

Vanilluköku

Kisuköku (súkkulaðikaka)

Bollakökur

Kökupinna

Hrískökupinna

Partí- kókosbollur

COVID-vænan nammibar (nammi í litlum ílátum)

Mini kleinuhringi frá Dons Donuts

Snakk og nammi

„Ég geri alltaf hluta veitinganna í stíl við þemað fyrir sjálft afmælisborðið. Ég er alltaf með of mikið af veitingum og því voru vinir sendir heim með nesti og nágrannar fengu kökusendingu þetta kvöld,“ segir Berglind sem deilir uppskriftum úr þessu guðdómlega fallega og frumlega barnaafmæli.

Það verður að vera freistandi sælgæti í barnaafmælum og litirnir tóna við þemað.
Girnilegar og gómsætar bollakökur stenst enginn.

Partý kókosbollur

Um 15 stykki

 • 1 poki Dr.Oetker flødebolleskum
 • 100 ml sjóðandi vatn
 • 2 tsk. vanilludropar
 • Nokkrir dropar af bleikum matarlit frá Dr.Oetker
 • 15 stykki Póló kex frá Frón
 • 400 g suðusúkkulaði
 • 2 msk. ljós matarolía
 • Kökuskraut

Setjið flødebolleskum í stóra skál, hellið sjóðandi vatni og vanilludropum saman við. Þeytið í 3-4 mínútur eða þar til topparnir halda sér vel (eru stífþeyttir). Bætið matarlitnum við og þeytið aðeins áfram. Notið stóran stjörnustút og sprautupoka til að sprauta vænum toppi á hvert kex (ég fór um 3 hringi upp með 1,5 cm breiðum hringlaga stút). Frystið í um klukkustund. Bræðið súkkulaðið og hrærið olíunni síðan vel saman við, notist við djúpa granna skál. Takið síðan eina kókosbollu úr frystinum í senn, dýfið henni á kaf í súkkulaði, hristið það aðeins af og leggið á bökunarpappír. Áður en súkkulaðið storknar alveg má skreyta með kökuskrauti.

Fallegasta kisukaka í heimi.

Kisukaka

Súkkulaðibotnar

240 g hveiti

350 g sykur

90 g bökunarkakó

2 tsk. matarsódi

1 tsk. salt

250 ml súrmjólk

150 ml matarolía

4 egg

250 ml heitt vatn

1 tsk. vanilludropar

Hitið ofn í 170°C. Hrærið saman öllum þurrefnum og leggið til hliðar. Pískið egg og blandið súrmjólk, olíu, vanilludropum og vatni saman við. Hellið vökvanum varlega saman við þurrefnin, hrærið og skafið niður á milli (deigið er þunnt). Takið til 4x15 cm smelluform, setjið bökunarpappír í botninn og spreyið vel með matarolíuspreyi. Skiptið deiginu jafnt á milli formanna og bakið í um 25-35 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á en ekki blautu deigi. Kælið alveg og skerið ofan af botnunum svo þeir verði alveg sléttir.

Kisukakan sem stal senunni í afmælisboði Huldu Sifjar, sett í hásæti með allskyns sætindum og kökum.

Krem á milli

125 g smjör við stofuhita

3 msk. bökunarkakó

2 tsk. vanilludropar

3 msk. hlynsíróp

3 msk. rjómi

400 g flórsykur

Þeytið smjör stutta stund. Bætið öðrum hráefnum saman við til skiptis, skafið niður á milli og hrærið vel. Þegar létt og þétt krem hefur myndast má smyrja því á milli botnanna og raða kökunni saman fyrir hjúp.

Krem í hjúp og skreytingu

250 g smjör við stofuhita

2 tsk. vanillusykur

100 ml rjómi

900 g flórsykur

Þeytið smjör stutta stund. Bætið öðrum hráefnum saman við til skiptis, skafið niður á milli og þeytið þar til létt og ljóst. Smyrjið fyrst þunnu lagi yfir allt til að hjúpa kökuna, geymið í kæli í um 30 mínútur. Litið hluta af kreminu í tónum sem þið ætlið að skreyta með, setjið í sprautupoka og geymið. Hjúpið kökuna að nýju með hvítu kremi, nú um ½ cm þykkt lag allan hringinn (notið smá litað krem ef þið viljið draga lit í eins og er gert neðarlega á þessari köku) og skreytið að vild. Hér eru sprautaðar rósir og stjörnur í mismunandi gerðum og skreytt með kökuskrauti.

Annað skraut og samsetning

Svartur matarlitur

Duft matarlitir

Sykurmassaskraut (hér stjörnur og eyru búin til úr slíku)

Kökuskraut, kerti og pinnar.

Útbúið eyru og stjörnur, leyfið því að storkna yfir nótt og litið síðan með duftmatarlitum. Teiknið augu, munn og veiðihár með fínum pensli og matarlit. Setjið síðan smá krem á hverja stjörnu áður en þið festið þær á hliðarnar.

Blöðrur, súkkulaðihríspinnar og flott afmælismerki.

Hrískökupinnar

 • 100 g smjör
 • 200 g hjúpsúkkulaði
 • 200 g suðusúkkulaði
 • 1 dós Lyle‘s sýróp (454 g)
 • 150 g lakkrískurl
 • 350 g Rice Krispies
 • Íspinnaprik
 • Kökuskraut og hjúpsúkkulaði að eigin vali til skrauts.

Setjið smjör, báðar tegundir af súkkulaði og sýróp í pott og bræðið saman við meðalháan hita. Leyfið blöndunni að „bubbla“ í 1-2 mínútur í lokin, takið af hellunni og blandið Rice Krispies og lakkrískurli saman við í nokkrum skömmtum. Setjið bökunarpappír í ofnskúffu og dreifið úr blöndunni á plötuna. Hún má fylla alveg út í hana á breiddina en kannski ekki nema helminginn af hæðinni. Stærðin má þó vera alla vega á pinnunum svo þið ráðið þessu í raun. Ég þjappa alltaf vel með annarri bökunarplötu ofan á (passið að leggja bökunarpappír á blönduna fyrst) og síðan þjappa ég þessu líka saman með fingrunum svo allt sé vel þétt í sér og nokkuð jafnt og ferkantað. Þá er að stinga íspinnaprikunum í blönduna með jöfnu millibili sitthvoru megin, þjappa vel að og kæla í um klukkustund. Næst má skera blönduna í sundur eftir miðjunni og síðan á milli íspinnaprikanna sitthvoru megin. Að lokum má síðan skreyta pinnana með því sem hugurinn girnist. Ég bræddi hér bæði hvítt og bleikt Candy Melts, setti í poka og klippti lítið gat á endann til að sprauta mynstur. Síðan setti ég kökuskraut og smá kökuglimmer yfir, raðaði á bökunarpappír á bakka, setti plastpoka yfir og geymdi í kæli fram að veisluhöldum.