Helena Gunnarsdóttir, matar- og sælkerabloggari, heldur úti bloggsíðunni Eldhúsperlur og Instgramsíðunni @eldhusperlurhelenu og hefur mikið dálæti á kræsingum sem einfalt er að gera og þarf ekki að flækja hlutina um of fyrir. Helenu líður best í eldhúsinu og nýtur þess að gleðja fjölskylduna með gómsætum kökum og réttum. Þegar sumarið er gengið í garð skiptir Helena aðeins um gír í eldhúsinu og matargerðin og baksturinn verður léttari og einfaldari.

„Mér finnst sumardagurinn fyrsti alltaf svo frábær og bara hvernig sem viðrar. Merki um bjartari tíma og íslenskt sumar sem hlýtur að vera það besta í heimi. Hátíðarhöld barnæskunnar hafa þó vikið fyrir rólegum frídegi með fjölskyldunni, sumargjöfum fyrir börnin og huggulegum kaffitíma,“ segir Helena þegar hún rifjar upp tilfinninguna þegar sumardagurinn fyrsti rennur upp.

Áttu þér einhvern sumarrétt sem þér finnst mikilvægt að framreiða og fagna komu sumarsins með?

„Sumarlegar tertur á borð við þessa sem ég gef uppskrift að hér þykja mér fullkomnar til að fagna sumri. Ég baka ekki síður á sumrin en baksturinn breytist, bananabrauð og súkkulaðitertur fá þá að víkja fyrir léttum sumartertum með berjum, skyrtertur eru líka frábærar og einfalt að henda í þess vegna í útilegunni.“

Fjöru- og skógarferðir vinsælar á sumrin

Áherslur í matreiðslunni breytast líka í takt við sumartímann hjá Helenu. „Grill á hug minn og hjarta allt sumarið og ég reyni að elda sem mest úti. Okkur fjölskyldunni finnst mjög gaman að fara út í fjöru eða í skógarferðir, kveikja eld og grilla pylsur eða sykurpúða. Gerum þetta reyndar líka á veturna en sumarið býður vissulega upp á þetta oftar.“

Hvernig myndir þú lýsa matarhefðum og -venjum þínum og fjölskyldunnar yfir sumartímann?

„Fljótlegt er líklega þemað hjá okkur á sumrin. Það nennir enginn að standa lengi í heitu eldhúsi, allavega ekki þegar sólin skín. Léttir grillréttir, grillaður fiskur og alls konar gómsæt og litrík salöt eru vinsæl hjá okkur. Grillaðar pylsur þykja þriggja ára syni mínum samt bestar í heimi og ekkert sem ég get útbúið sem toppar þær.“

Flott og ljúffeng tertan sem Helena útbjó fyrir lesendur.

Mjúkir svampbotnar með stökkum möndlum

Við fengum Helenu til að svipta hulunni af sinni uppáhaldstertu sem tengist sumarmatarástinni. „Uppskriftin að tertunni sem ég deili með ykkur er mín uppáhalds þessa dagana og einstaklega sumarleg.

Mjúkir svampbotnar með stökkum möndlum, silkimjúku vanillu mascarpone-kremi og jarðarberjum. Ef ég væri að fara að gifta mig í sumar myndi ég henda í þessa, svo góð er hún.“

Sumarleg terta að hætti Helenu

Möndlu-svampbotnar

4 egg

200 g sykur

1 msk. vanillusykur

80 g hveiti

1 tsk. lyftiduft

200 g fínt hakkaðar möndlur (ég kaupi heilar möndlur með hýði og hakka í matvinnusluvél, myndi ekki nota tilbúið möndlumjöl)

1 dl rjómi

Krem

400 g mascarpone

2 dl flórsykur

2 tsk. vanilluextraxt eða fræin úr heilli vanillustöng

4 dl rjómi

Fersk jarðarber eftir smekk

AÐFERÐ

Botnar:

Hitið ofn í 175°C gráður með blæstri (190°C gráður án blásturs, en ég mæli alltaf með að baka kökur á blástursstillingu ef hægt er).

Þeytið mjög vel saman egg, sykur og vanillusykur þar til blandan verður þykk, ljóst og létt. Í annarri skál blandið vel saman hveitinu, möndlunum og lyftiduftinu. Hrærið helmingnum af þurrefnunum varlega saman við eggjablönduna með sleif eða sleikju. Hellið þá rjómanum og restinni af þurrefnunum saman við og blandið vel en varlega saman.

Hellið deiginu í tvö hringlaga 24 cm form og bakið í um 16-18 mínútur eða þar til prjónn sem stungið er í miðja köku kemur hreinn upp. Kælið botnana alveg á grind og gerið kremið á meðan.

Krem:

Þeytið mascarpone, vanillu og flórsykur aðeins saman þar til osturinn er mjúkur og sléttur, hellið rjómanum saman við á meðan þið þeytið og þeytið allt áfram þar til blandan er orðin að þykku silkimjúku kremi.

Skerið nokkur jarðarber til að setja á milli botnanna og geymið nokkur til að skreyta tertuna.

Setjið um það bil helminginn af kreminu á neðri botninn, dreifið söxuðum jarðarberjum yfir og leggið hinn botninn ofan á. Setjið restina af kreminu á tertuna og skreytið fallega með berjum og ef til vill fallegum blómum. Tertuna má bera fram strax en hún verður jafnvel betri við að fá að standa aðeins í ísskáp.