Matgæðingurinn og eigandi Salt Eldhúss, Sigríður Björk Bragadóttir, sem ávallt er kölluð Sirrý, segir hér frá sínum matarhefðum og venjum á 17. júní.

Sirrý segist vel muna eftir bernskuárum sínum á 17. júní þegar söngurinn ómaði „Hæ, hó, jibbí, jei og jibbí, jei.“

„Ég hef alltaf farið í skrúðgöngu og fæ enn gæsahúð þegar lúðrasveitin byrjar að spila. Ég var skáti þegar ég var yngri og þá var mikill undirbúningur og tilstand fyrir þennan dag.“

Aðspurð segir Sirrý að dagurinn hafi ávallt verið hátíðlegur og fastmótuð dagskrá hafi verið hjá fjölskyldunni þar sem haldið var í ákveðna siði og hefðir.

„Ég fór alltaf í skrúðgöngu og tók þátt í hátíðahöldum með foreldrum mínum og síðan í kaffi og rjómatertu til ömmu á eftir. Þegar ég var yngri var dansiball á Lækjartorgi um kvöldið og hljómsveit spilaði, þá fór ég með pabba og mömmu og þau dönsuðu á torginu, það var rosa stemming. Í dag förum við stórfjölskyldan gjarnan saman til að njóta dagsins við hátíðahöldin yfir miðjan daginn og borðum síðan jarðarberjakökuna heima á eftir.“

Mikilvægt að halda upp á afmæli Íslands

Sirrý er umhugað að halda upp á daginn og halda í ákveðnar fjölskylduhefðir, ekki síst fyrir yngri kynslóðina.

„Mér finnst mjög mikilvægt að halda upp á daginn, það vafðist eitthvað fyrir litla ömmustráknum mínum þegar við vorum í skrúðgöngunni hvað væri verið að halda upp á en þegar ég útskýrði fyrir honum að það væri afmælisdagur Íslands var allt á hreinu. Mér finnst mikilvægt að halda upp á þennan dag, sjálfstæði er ekki sjálfsagt og margar þjóðir eru að berjast fyrir því.“

Fór í fínasta kjólinn og setti upp kórónu

Fallegasta bernskuminning Sirrýjar í tengslum við 17. júní er fyrst og fremst að hafa ávallt farið í skrúðgönguna uppáklædd í þjóðbúning með fána.

„Það er svo hátíðlegt,“ segir Sirrý og brosir.

Hún segist ekki lengur klæða sig upp á þessum degi.

„Ég var alltaf í þjóðbúningi sem krakki en á engan í dag. Ég fer nú samt í betri fötin. Ég á krúttlega sögu af ömmustelpunni minni. Hún hefur verið um það bil 4 ára og á 17. júní í það skiptið kom ég með kökuna heim til hennar til að njóta eftir hátíðahöldin. Hún var búin að klæða sig í kjól en þegar hún sá flottu kökuna með öllum fánunum skipti hún um föt og fór í fínasta sparikjólinn og setti upp kórónu. Henni fannst kakan svo flott að hún varð að vera í stíl við hana.“

Heimilið í hátíðarbúning

Sirrý skreytir líka heimilið á þessum hátíðisdegi.

„Ég set alltaf fána í blómakerin, að sjálfsögðu og svo er kakan svo undurfalleg með fánunum.“

Í tilefni dagsins bakar Sirrý ávallt hina frægu jarðarberjalagtertu sem hefur fylgt fjölskyldunni og öll fjölskyldan kemur saman á þjóðhátíðardeginum til að snæða saman og fagna afmæli Íslands.

Sirrý gefur lesendum Fréttablaðsins uppskriftina að hinni hátíðlegu jarðarberjalagtertu sem er guðdómlega ljúffeng og auðvitað fagurskreytt í íslensku fánalitunum.

Jarðarberjalagterta Sirrýjar er hin hátíðlegasta í þjóðhátíðarbúningnum og guðdómlega góð.

Jarðarberjalagterta

10 sneiðar

4 egg

120 g sykur

100 g hveiti

½ tsk. lyftiduft

50 g smjör brætt og kælt lítillega

Hitið ofninn í 180°C. Þeytið egg og sykur saman þar til blandan er ljós og létt. Bætið smjörinu rólega út í í mjórri bunu á meðan hrærivélin gengur og passið að það sé ekki of heitt því þá bræðir það eggjamassann. Sigtið hveiti og lyftiduft út í eggin og blandið því saman við með sleikju. Setjið bökunarpappír í botninn á tveimur 22 cm smellumótum. Skiptið deiginu á milli formanna. Bakið í um 20 mín. Takið úr formunum og kælið. Þið getið haft kökuna á 3 hæðum með því að nota þrjú 20 cm form.

Fylling á milli botna

500 g jarðarber eða hindber

1 msk. sykur

½ lítri rjómi

Ef þið notið jarðarber eru þau skorin í bita ef þau eru stór, hindberin eru höfð heil. Setjið berin í skál og bætið sykri út í eftir smekk, ef berin eru vel sæt er óþarfi að nota sykurinn. Þeytið rjómann. Setjið rjóma og ber á milli botnanna og ofan á. Skreytið með berjum og fánum og ef til vill litlum marengskökum.

Berið fram á fallegan og hátíðlegan hátt. Upplagt er að skreyta hátíðarborðið í íslensku fánalitunum.

Gleðilegan 17. júní!